„Við komumst bara ekki eins hratt yfir“

Dagur sorphirðufólks hefst snemma.
Dagur sorphirðufólks hefst snemma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvískiptar tunnur, illfærar heimreiðar, bilanir í tækjabúnaði, jólin og breytt neyslumynstur eru meðal ástæðna fyrir því að erfiðlega hefur gengið að halda áætlun við sorphirðu á endurvinnslutunnum í Reykjavík. 

Sorp hef­ur víða safn­ast upp á heim­il­um og íbúar margir hverjir ósáttir við að ekki sé búið að losa tunnurnar. Sorphirðufólk á vegum borgarinnar gerir hvað það getur til að halda í við sorphirðu og hefur ýmist lengt vinnudag sinn og bætt við sig helgarvinnu.

Sorphirða vinnst illa eftir klukkan fjögur

„Við erum vissulega eftir á í pappa og plasti og erum að reyna að vinna okkur upp með auka vinnudögum,“ segir Atli Ómarsson, deildarstjóri sorphirðu hjá Reykjavíkurborg. Hann segir að erfitt sé að lengja vinnudaginn mikið þar sem sorphirða vinnist illa eftir klukkan fjögur á daginn, þegar umferð er mikil, þess í stað byrji dagurinn snemma og er sorphirðufólk komið af stað klukkan sex alla daga. 

Spurður hvers vegna vandinn sé jafn mikill og raun ber vitni segir Atli að hægst hafi á sorphirðu í kjölfar þess að tvískiptum tunnum, fyrir plast og pappa, var komið fyrir fyrir utan sérbýli fólks. 

„Við komumst bara ekki eins hratt yfir,“ segir Atli og útskýrir að áður hafi verið hægt að losa fleiri en eina tunnu í einu, en nú sé einungis hægt að losa eina tvískipta tunnu í einu. 

Auk þess kom upp bilun í tækjabúnaði sem erfiðlega gengur að laga þar sem framleiðandi tækjabúnaðarins varð gjaldþrota seinnipart síðasta árs, segir Atli. Hann bindur þó vonir við að hægt verði að ráða fram úr þeim vanda sem fyrst og segir að unnið sé að því í samvinnu við innflytjanda tækjabúnaðarins að fá varahluti hingað til lands. 

Von á þremur nýjum bílum

Í ofanálag auðveldar árstíminn ekki sorphirðu, að sögn Atla. Hvorki veðurfar né neyslumynstur Íslendinga yfir hátíðirnar, segir hann og biðlar til fólks um vinna með sorphirðufólki. Ýmist með því að moka frá tunnunum, salta og sanda, geyma inni pappa og plast sem ekki lyktar, eða fara með umfram sorp, sem ekki kemst í tunnurnar, á endurvinnslustöðvar Sorpu. 

„Fólk mætti líka ganga betur um ílátin sín,“ segir Atli og leggur áherslu á að pappi og plast sé rúmmálsfrekur úrgangur. Því verði fólk að nýta vel plássið í tunnunum og brjóta efnið saman, „ekki troða,“ segir Atli og útskýrir fyrir blaðamanni að það geti tafið sorphirðu þegar búið er að troða miklu í tunnurnar og þannig „stífla“ þær. 

„Sorpílát er takmörkuð auðlind sem að fólk verður að nýta vel. Brjóta saman efnið og ekki troða,“ segir Atli.

Að sögn Atla er verið að bregðast við umræddum vanda með því að auka við bílaflota sorphirðunnar sem á von á þremur nýjum bílum á vormánuðum. Þangað til segir hann erfitt að ráða fram úr vandanum öðruvísi en að biðla til fólks um gera hvað það getur til að einfalda sorphirðufólki verkið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert