Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, verður staðgengill Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra dagana 10.-14. janúar.
Erindið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og hefur verið sent forseta til undirritunar, samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu.
Er ríkisstjórn Katrínar var mynduð í nóvember 2017 undirritaði forseti tillögu um staðgengla forsætisráðherra.
Þar er tilgreint að þegar forsætisráðherra sé fjarverandi erlendis sé Bjarni Benediktsson staðgengill. Í fjarveru beggja sé Sigurður Ingi Jóhannsson staðgengill forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir að honum frágengnum.
Næstu fjóra daga háttar svo að Katrín og allir tilgreindir staðgenglar verða erlendis og því mun Guðlaugur Þór gegna störfum forsætisráðherra.