Forhönnun að nýju Austurstræti var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun. Strætið verður göngugata.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Hollenska hönnunarstofan Karres en Brands auk hinnar íslensku Sp(r)int Studio hönnuðu nýja strætið, en þau hönnuðu einnig nýja Lækjartorg.
Reykjavíkurborg segir að nýja hönnunin eigi að ýta undir að gatan verði áfram ein mikilvægasta gata miðborgarinnar.
Einnig verður hafist handa við endurskoðun deiliskipulags Kvosarinnar sem göngusvæðis í samræmi við umferðarskipulag Kvosarinnar, hönnunarforsendur og fyrirliggjandi forhönnun á svæðinu, í Kirkjustræti, Austurstræti og á Lækjartorgi.
Í undirbúningsferlinu og á framkvæmdatíma verður haft samráð og virkt samtal við viðeigandi hagsmunaaðila svo sem íbúaráð, aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og atvinnulíf á svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
„Framtíðarsýn Austurstrætis felst í því að ná fram heildstæðu yfirbragði þar sem hið gamla mætir hinu nýja á sannfærandi hátt,“ segir í tilkynningunni.
Lauftré verða gróðursett í þyrpingum. Gert er ráð fyrir að meirihluti hjólastæðanna á svæðinu verði staðsett á Pósthússtræti.