Magni R. Magnússon, fyrrverandi kaupmaður, sem margir minnast úr versluninni Hjá Magna á Laugavegi 15 á árum áður, öðru heimili frímerkja- og myntsafnara auk spilara, hvort tveggja á borðspil sem tölvuskjá, ritar aðsenda grein í Morgunblaðið í gær og segir þar af því sem hann kallar í fyrirsögn „undarlega upplifun í banka allra landsmanna“.
„Ég vil segja frá sérkennilegri reynslu sem ég varð fyrir í lok nóvember,“ hefur Magni frásögn sína og kveðst þá hafa þurft á sjúkrabíl að halda. Hundrað prósent þjónustu hafi hann notið hjá Rauða krossinum og fengið í kjölfarið reikning frá Sjúkrasjóði Rauða krossins.
Undarlega upplifunin hafi hins vegar tengst ferðalagi Magna í Landsbankann í Borgartúni og var hann beðinn að greina mbl.is frá þeirri heimsókn í símtali í eigin persónu.
„Þetta voru elskulegir piltar sem náðu í mig á sjúkrabíl og komu mér upp á spítala þar sem ég var dálítinn tíma. Svo fæ ég sendan svona gíróseðil ægilega fallegan. Við erum bíllaus, við höfðum vit á því fyrir tíu árum við konan, svo nú nota ég bara fæturna,“ segir Magni sem verður 89 ára á þessu ári. Hafi honum því sýnst skynsamlegast að ganga í Borgartúnið þaðan sem hann er búsettur á Laugarnesveginum.
„En Íslandsbankinn minn er uppi á Suðurlandsbraut og tekur mig hálftíma hvora leið að labba þangað og jafnvel meira í hálku. Svo ég hugsa með mér að ég fari bara í Landsbankann og borgi þetta þar,“ heldur Magni áfram og þangað fór hann, tók út 10.000 krónur í reiðufé úr hraðbanka Landsbankans og hélt til móts við afgreiðslufólk.
„Ég legg svo reikninginn á borðið og segi við elskulega stúlku „Ég ætla að fá að borga þetta,“ og rétti henni seðlana. Þá spyr hún mig hvort ég sé með reikning hérna. „Nei,“ segi ég.
„Nú, þá geturðu ekki borgað þetta hérna.“
„Nú, eruð þið ekki með íslenska peninga?“
Hún verður dálítið kindarleg en segir svo „Jú, en þú verður að eiga bankareikning til að geta borgað hérna.“
„Æ, æ,“ segi ég, „en hvernig er það, get ég ekki borgað með kreditkorti hérna?“
Þá brosir hún og segir „Jú jú jú,“ og ég rétti henni kortið en þá segir hún „Æ, æ, vandamál þarna, þú ert með Íslandsbankakort.“
„Já, það er banki,“ segi ég.
„En við getum ekki tekið það.“
„Nú, eru þeir á svörtum lista?“ spyr ég.
„Nei nei, en reglurnar eru svona. Þú verður að eiga reikning til að geta notað kortið hérna og vera með kort frá okkur.“
Svo ég segi „Þetta er nú ljóta málið,“ en svo segi ég við hana „Ég vann nú um miðja síðustu öld í tíu ár í Landsbankanum og var ánægður þar og þeir ánægðir með mig. Svo var það annað fyrirtæki sem bauð í mig og ég flutti mig. Og svo þegar bankinn fór á hausinn voru allir reikningar eyðilagðir og þá missti ég reikninginn minn eins og fleiri, en ég sé að þið getið opnað reikning hér fyrir mig, er það ekki?“
„Ha?“ segir hún.
„Ja, ef ég legg inn peninga hérna?“
„Jú,“ segir hún.
„Nú, þá ætla ég bara að opna reikning og leggja inn þessi tíu þúsund sem ég var að taka út áðan,“,“ kveðst Magni þá hafa sagt.
Sú ráðstöfun hafi hlotið náð og gjaldkerinn því næst komið með stórt plagg, „fallegt plagg með tíu-tólf atriðum sem hún þurfti að spyrja mig um. Þar voru alls konar spurningar og svo spurði hún mig í lokin „Hvaðan koma þessir peningar?“
Og þá segi ég „Það var nú ljóta vesenið, ég tók þá út hérna úr hraðbanka, eru þeir ekki gildir?“
„Jú,“ svaraði þessi elska og svo er reikningurinn opnaður og ég legg þetta inn og tek svo út af reikningnum upphæðina fyrir seðlinum frá Rauða krossinum og þá á ég inni núna tæpar fjögur þúsund krónur sem var afgangurinn af þessum tíu. Svo nú get ég komið inn í bankann og sagt „Jæja, nú ætla ég að fá að taka út hundrað krónur, ég ætla að fá mér AB-mjólk eða eitthvað því nú er ég orðinn viðskiptavinur Landsbankans,“ segir Magni og hlær, bætir því við að margt hafi breyst frá því á öldinni sem leið.
„Þeir voru góðir í gamla daga, þegar bankar voru bankar, en svona er þetta orðið,“ segir Magni frá og er þá að minnsta kosti orðinn viðskiptavinur hjá Landsbankanum.
„En ég veit ekki hvað gerist ef ég loka reikningnum, þeir taka sennilega gjald fyrir að loka reikningi, ég var rukkaður um nokkur hundruð krónur fyrir að taka út í hraðbankanum,“ segir kaupmaðurinn sem man tímana tvenna – ef ekki þrenna.
„Í gamla daga voru ógurlega skemmtilegir bankastjórar, þeir heilsuðu manni á götu. Pétur Ben. til dæmis, þegar hann kom, þá fór hann um allan bankann og heilsaði öllum með handabandi,“ rifjar Magni upp af Pétri Benediktssyni, sendiherra, alþingismanni og bankastjóra Landsbankans frá 1956 til æviloka árið 1969 og bróður Bjarna Benediktssonar ráðherra.
Eins kann Magni sögu af Vilhjálmi Þór Þórarinssyni, bankastjóra Landsbankans frá haustdögum 1940. „Hann var svona líka. Ég var að fara til útlanda einhvern tímann og við millilendum í einhverri borg. Þá kemur hann til mín þar og segir „Ungi maður,“ hann þéraði náttúrulega, „þér starfið í Landsbankanum hjá okkur er það ekki? Má bjóða yður upp á drykk?“ „Já, gjarnan, ég ætla að fá appelsínusafa,“ sagði ég, því ég hef verið ógurlega rólegur í drykkjunni.
Svona voru þeir í gamla daga, en þá þurftirðu líka að bíða í biðröð til að hitta bankastjórann til þess að fá víxil. Þetta eru breyttir tímar en starfsfólkið í bönkunum er ógurlega elskulegt þótt það megi ekkert segja og ekkert gera...og allt orðið trúnaðarmál,“ segir Magni R. Magnússon kaupmaður að lokum um heimsókn í Landsbankann í nóvember – og gott betur.