Tekin hefur verið ákvörðun um að banna tímabundið alla dvöl og starfsemi í Grindavík.
Þetta sagði Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundi í dag.
Dvöl í Grindavík þykir óásættanleg að mati almannavarna og því hefur ákvörðun verið tekin um að fyrirskipa brottflutning allra úr Grindavík og banna alla starfsemi þar frá og með kl. 19 mánudaginn 15. janúar og verður gildistíminn þrjár vikur.
Aðeins verður heimilt að vera í Grindavík til að sinna björgun, rannsóknarstörfum og fleiru slíku með sérstöku leyfi frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Opið verður inn í bæinn til klukkan sjö á mánudagskvöld en Víðir ítrekar að mikil hætta sé í kringum sprungurnar í bænum og fólk þurfi að fara mjög varlega.
Þeir sem dvelja nú í Grindavík eru beðnir um að hringja í 1717 og tilkynna brottflutning og nýjan dvalarstað.
Víðir segir að aðstæðurnar í Grindavík séu fordæmalausar. Hætta á skyndilegri opnun á sprungu í eða við Grindavík sé meiri en áður samkvæmt uppfærðu hættumati Veðurstofunnar.