„Maður horfir bara á húsið sitt í bakgrunninum“

Þetta má sjá á vefmyndavélum mbl.is.
Þetta má sjá á vefmyndavélum mbl.is. mbl.is

„Maður horfir bara á húsið sitt í bakgrunninum og manni líður auðsjáanlega ekki vel,“ segir Hlynur Sæberg Helgason sem ásamt fjölskyldu sinni býr í húsi við Efrahóp í Grindavík sem er steinsnar frá nýju sprungunni sem opnaðist við efri byggð bæjarins.

Heimili þessarar sex manna fjölskyldu sést skýrt í beinni útsendingu frá eldgosinu. „Maður vonar bara að það verði ekki mikill kraftur í þessari sprungu og að hún klári sig áður en hún nær byggð,“ segir Hlynur í samtali við mbl.is. 

Hlynur segir fjölskylduna ekki hafa verið viðstadda þegar bærinn var rýmdur í nótt þar sem hún hefur ekki gist í bænum frá rýmingu fyrir síðasta eldgos. Er fjölskyldan nú í sumarbústað en elstu strákarnir eru í íbúð sem fjölskyldan hefur aðgang að í Keflavík.

Hann kveðst þó sjálfur hafa fengið tækifæri til að gista í húsinu því hann er björgunarsveitarmaður og tók virkan þátt í leit að manninum sem féll ofan í sprungu í bænum nýverið. Þrátt fyrir það mikla og krefjandi verkefni var gott að geta sofið í eigin rúmi og verið á eigin heimili, að sögn Hlyns.

Hlynur tók nýverið þátt í leitinni að manninum sem féll …
Hlynur tók nýverið þátt í leitinni að manninum sem féll í sprungu í Grindavík. Ljósmynd/Landsbjörg

„Maður verður að vera bjartsýnn“

Nú er fylgst grannt með öllu sem er að gerast í tengslum við eldgosið.

„Þetta er mjög furðulegt allt saman. Það er greinilega þessi sprunga sem sem sést á skjánum sem liggur alveg í gegnum bæinn sem er að rifna upp og spurning hversu langt það nær.“

Spurður hvort það sé erfitt að líta upp frá skjánum svarar Hlynur því játandi. „En ég er nú björgunarsveitarmaður og manni finnst eins og maður ætti að fara að halda heim, en ég veit svo sem ekkert hvað ég ætti að vera að gera þar. Maður er líka með hugann við það hvort maður getur komist að sækja eitthvað, ég reikna ekki með því.“

Hann segir allt innbú eftir í húsinu enda var ekki mikið tekið þegar bærinn var rýmdur í desember. „Við fórum bara með myndir af veggjum og föt með það í huga að fara fljótlega heim aftur og erum búin að binda vonir við það. Svo þurfti ekki að fara með annað úr húsinu þar sem ég er með Airbnb íbúð á leigu.“

„Maður er bara enn með von um að þetta klári sig rétt fyrir ofan og svo komist maður heim einn daginn. Maður verður bara að vera bjartsýnn þar til annað kemur í ljós,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert