Dýraverndarsamband Íslands hefur fengið þær upplýsingar að björgun dýra í sjálfheldu í Grindavík sé metin út frá forgangsröðun verðmæta og sé samkvæmt því ekki í fyrsta forgangi af hálfu almannavarna.
Kemur þetta fram í tilkynningu sem sambandið sendi frá sér rétt í þessu.
Um er að ræða sauðfé í nokkrum fjárhúsum sem er innilokað og orðið bæði fóðurlaust og vatnslaust. Tvö fjárhús eru í bænum sjálfum.
Dýraverndarsambandið bendir á í tilkynningu sinni að skv. lögum um velferð dýra nr. 55/2013 er hverjum þeim er vart verður við dýr í neyð skylt að koma þeim til bjargar.
Samkvæmt upplýsingum sambandsins hafa bændur ekki fengið neinar upplýsingar um hvenær þeir geti komið vatni og fóðri til dýranna.
Grétar Jónsson, bóndi á svæðinu, segir engar upplýsingar að fá. Hann gagnrýnir það að mikið af fólki sé á staðnum en bændur fá engin svör. „Þó það væri ekki nema bara það að fá björgunarsveitarfólk til að gefa dýrunum, sem hefur verið án vatns og matar í langan tíma núna,“ bætir hann við.