Heildarsamtök og félög launafólks sýna samstöðu með Palestínumönnum og fordæma yfirstandandi árás Ísrael á Gasasvæðinu. Palestínski fáninn var dreginn að húni við skrifstofur Fagfélaganna, ASÍ og BSRB í hádeginu í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningum frá félögunum í dag, en þar skora þau einnig á íslensk stjórnvöld að leita allra leiða til að þrýsta á að endir verði bundinn á hörmungarnar.
100 dagar eru nú liðnir frá upphafi árásanna, en hernaðaraðgerðirnar hafa kostað fleiri en 23 þúsund mannslíf, en auk þessar er um 7.000 manns saknað og eru þau talin látin undir rústum.
„Ljóst er að liðlega helmingur fallinna eru börn. Ísraelsmenn hafa með framferði sínu virt alþjóðalög að vettugi og engu skeytt um afleiðingar árása sinna. Flestir óbreyttir borgarar sem ekki hafa fallið hafa verið hraktir á flótta eða heimili þeirra eyðilögð,“ segir í tilkynningu Fagfélaganna.
„Verkalýðshreyfingin er hreyfing lýðræðis, mannréttinda og friðar á alþjóðavísu og fjöldi systursamtaka okkar um gervallan heim beita nú einnig afli sínu til að binda enda á hörmungarnar,“ segir í tilkynningu ASÍ.