Vill endurskoða reglur um heimagistingu fyrir Grindvíkinga

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að á tímum sem þessum …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að á tímum sem þessum hljóti allt að koma til greina. Margir Grindvíkingar búi í sumarbústöðum, atvinnuhúsnæði og í híbýlum vina og vandamanna. Á sama tíma séu þúsundir íbúða fráteknar fyrir skammtímaleigu ferðamanna, jafnvel allan ársins hring. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Ómar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki trúa öðru en að skoðað verði að takmarka leyfi um skammtímaleigu til að bregðast við húsnæðisskorti Grindvíkinga.

Þetta segir Kristrún í samtali við FF7.is í dag.

Segir Kristrún að á tímum sem þessum hljóti allt að koma til greina. Margir Grindvíkingar búi í sumarbústöðum, atvinnuhúsnæði og í híbýlum vina og vandamanna. Á sama tíma séu þúsundir íbúða fráteknar fyrir skammtímaleigu ferðamanna, jafnvel allan ársins hring.

Njóti skakkrar samkeppnisstöðu

Segir hún íbúðirnar jafnframt njóta skakkrar samkeppnisstöðu meðal annars vegna reglugerðar, sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem ráðherra ferðamála á þeim tíma en nú fjármálaráðherra, setti árið 2018.

„Afleiðing er sú að skammtímaleiguíbúðir sem reknar eru sem hótelíbúðir borga lægri fasteignaskatta en annar atvinnurekstur í landinu.

Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin skoði þennan möguleika, enda allt undir í aðstæðum sem þessum,“ sagði Kristrún.

Tryggja húsnæði fólks sem býr og starfar í landinu

Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar voru á suðvesturhorninu um 2.500 íbúðir til leigu síðastliðið sumar.

Samfylkingin boðaði fyrr í vetur aðgerðir til að ná stjórn á skammtímaleigu. Kristrún segir stöðuna á húsnæðismarkaðnum erfiða og nú þurfi að leita leiða til að tryggja húsnæðisöryggi fólks sem býr og starfar í landinu.

„Samfylkingin er að minnsta kosti tilbúin í þetta samtal,“ sagði Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert