Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður og íbúi í Grindavík til fjörutíu ára, hlaut miklar undirtektir þegar hann tók til máls úti í sal á íbúafundi Grindavíkinga nú í kvöld.
Sagði hann kostnaðinn við að borga Grindvíkinga út vera smáaura í samanburði við þann gjaldeyri sem bæjarfélagið hafi skilað til landsins.
„Ég verð stundum svo svekktur þegar ég pæli í því, eins og Þórdís Kolbrún sagði áðan, að það kosti um 115 milljarða að borga okkur út. 115 milljarða,“ sagði Páll Valur.
„Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað Grindavík hefur skaffað miklum gjaldeyri inn í þetta land?“
Hann hélt áfram:
„Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað útgerðarfélögin okkar, stórglæsilegu útgerðarfélögin okkar, útgerðarmennirnir – og hér sitja gamlir skipstjórar, sjómenn og við fiskvinnslufólk sem unnu baki brotnu við að byggja upp þetta bæjarfélag. Hvað, eru þetta 50-60 milljarðar á ári? Og svo Bláa lónið líka?“
Hann ávarpaði fulltrúa stjórnvalda á fundinum, en fjöldi ráðherra kom til fundarins við íbúa:
„Og þið eruð að velta fyrir ykkur 115 milljörðum? Það eru smáaurar í samanburði við það sem Grindavík hefur fært íslensku þjóðarbúi,“ sagði hann og hlaut standandi lófatak eins og Grindvíkingurinn Bryndís Guðlaugsdóttir, sem áður hafði tekið til máls.
„Fólk vill fá svör við þessari spurningu einni - ætlið þið að borga okkur út?“
Þá benti hann á að fólk hefur búið þarna í tugi ára og hann meðal annars í fjörutíu ár:
„Ég er búinn að berjast eins og skepna við að koma mér uppi húsi og nú er það bara í einhverjum sigdal – verðlaust.“
Að lokum ítrekaði hann:
„Það er bara þetta sem ég vil benda á og mér finnst að hafi gleymst þegar við tölum um Grindavík – hvað við erum mikil gullkista fyrir íslenskt samfélag. Við eigum einhverja flottustu útgerðarmenn landsins og einhverja flottustu sjómenn landsins sem hafa byggt upp og landað í Grindavík.“
Þá benti hann að lokum á að hvergi annars staðar væri meira af þorski landað en í Grindavík.
„Það á ekki að vefjast neitt fyrir ríkisstjórn Íslands að borga okkur öll út, ef það er það sem við viljum, með forgangsrétti aftur ef við viljum koma inn.“