„Ég er auðmjúkur gagnvart þeirri ábyrgð sem mér er falin,“ segir Einar Þorsteinsson sem tók við sem borgarstjóri í Reykjavík í dag.
„Ég er þakklátur fyrir stuðninginn sem Framsókn fékk í síðustu kosningum. Þá var skýrt ákall að hálfu Framsóknar um breytingar á hinni pólitísku forystu í borginni. Stuðningurinn sem Framsókn fékk leiddi til þess að skipt er um borgarstjóra í dag og Framsókn er að eignast sinn fyrsta borgarstjóra í sögu flokksins,“ segir Einar í samtali við mbl.is.
„Verkefnin eru ærin. Við höfum verið að takast á við erfiða fjárhagsstöðu og höfum beitt okkur strax frá fyrsta degi í að laga hana og það gengur vel. Stefnan er að skila afgangi á næsta ári en efnahagsumhverfið er ekki að hjálpa sveitarfélögunum eða ríkinu. Til að markmiðið náist þarf að sýna áframhaldandi aðhald.“
„Ég held að óhætt sé að segja að verkefnið er mjög krefjandi. Við erum stærsta sveitarfélagið á Íslandi og höfuðborgum fylgja fleiri verkefni heldur en mörg önnur sveitarfélög taka sér á hendur. Það er bara eðlilegt og hlutverk höfuðborga um allan heim er að taka á sig auknar skyldur. Við gerum það með stolti en samfélagið er að breytast,“ segir hann og útskýrir:
„Hér er mjög stór hópur erlendra barna í skólakerfinu okkar sem kallar á aukinn stuðning og mikil fjárútlát. Það skiptir mjög miklu máli að tryggja að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa, að íslenskukennsla gangi vel og svo framvegis.
Ef við horfum til framtíðar þá má segja að í stóra samhenginu sé samfélagið að breytast og borgin að vaxa hratt. Hingað flytur fólk frá öðrum sveitarfélögum og utan úr heimi. Vaxtarverkirnir finnast bara mjög víða í kerfinul,“ segir Einar.
„Þeir finnast í húsnæðismálunum, samgöngumálunum, fjárútlátum til velferðarmála og á fleiri sviðum. Okkar verkefni er að stýra borginni þannig að verkirnir verði ekki of sárir en ég hef mikla trú á að það muni ganga vel.“
Kalla má Einar nýliða í stjórnmálum í ljósi þess að hann gaf nú í fyrsta skipti kost á sér á þessu kjörtímabili. Uppgangurinn var hraður þegar hann fékk oddvitasæti hjá Framsóknarflokknum, var kjörinn í borgarstjórn og tekur við embætti borgarstjóra tuttugu mánuðum síðar. Telur Einar að hann muni hafa ánægju af starfi borgarstjóra?
„Já ég hef haft gaman að þessu frá fyrsta degi og í rauninni er þetta miklu skemmtilegra en ég bjóst við. Ég er óhræddur við að standa í eldlínunni og takast á við erfið mál. Það hef ég gert á vettvangi fjölmiðlanna. Þetta er öðruvísi verkefni og ábyrgðin er mikil. Ég er með gott fólk með mér og meirihlutinn stendur föstum fótum auk þess sem samstarfið við minnihlutann er miklu betra en birtist alla jafna í fjölmiðlum. Ég vil beita mér fyrir því að við náum meiri sátt um mál og vinnum þau betur saman. Ég hef fundið að andinn er í betri í ráðhúsinu heldur en á fyrra kjörtímabili og þar síðasta tímabili,“ segir Einar Þorsteinsson.