Samantekt um aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni á árunum 2020-2023 var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti samantektina.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins
Samantektin er 24 blaðsíður að lengd og fer yfir lög, þingsályktanir og aðgerðaáætlanir, aðgerðir gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, alþjóðlega samninga og sáttmála, og að lokum önnur verkefni tengd málaflokknum.
Samskonar samantekt var gefin út í maí 2021.
„Í stjórnarsáttmálum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hefur verið lögð áhersla á að vinna markvisst að aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi, umbótum í meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu og eflingu forvarna og fræðslu gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni,” kemur fram í samantektinni.