Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sýnir ekki of mikið á spilin í sambandi við framtíðaráform sín en segir þó liggja fyrir að hann sé á leiðinni á árshátíð á laugardaginn.
Dagur lét í gær af störfum sem borgarstjóri í Reykjavík eftir tíu ár. Alls hefur hann verið ellefu ár í embættinu á ferlinum. Degi voru þökkuð störf hans í Ráðhúsinu á borgarstjórnarfundi og í framhaldinu tók Einar Þorsteinsson við embættinu.
„Þetta eru alla vega mikil tímamót í mínu lífi. Stolt er mér efst í huga. Mér finnst gott að skilja vel við og meirihlutinn heldur áfram sínum verkum. Þegar ég horfi yfir sviðið þá hefur Reykjavík vaxið og blómstrað á alla enda og kanta. Borgin er á fljúgandi ferð að mínu mati og það fyllir mig stolti,“ segir Dagur sem er áfram borgarfulltrúi og verður formaður borgarráðs.
Hann kveðst hlakka til þeirra tíma þegar álagið verður orðið minna en þegar hann var borgarstjóri.
„Nú tek ég við formennskunni í borgarráði en ég vonast nú til þess að geta aðeins undið ofan af mér, fengið svigrúm til að lesa og komast í meira andrými en fylgir starfi borgarstjóra. Ég hef ákveðið að líta á þessi tímamót sem spennandi tækifæri. Í því hefur líka falist að ég hef verið svolítið á skóflunni síðustu mánuði við að klára mál og setja allt í farveg þannig að ég skilji eftir mig hreint borð,“ segir Dagur í samtali við mbl.is að loknum lyklaskiptum í Ráðhúsinu.
„Síðan staldrar maður bara við og í rauninni hef ég ekki haft svigrúm til að taka frekari ákvarðanir og því hef ég ákveðið að bíða með það. En ég hef hins vegar sagt alveg skýrt að ég geri ekki ráð fyrir að fara í næstu borgarstjórnarkosningar og því er ljóst að eitthvað annað tekur við.“
Veltir Dagur fyrir sér að gefa kost á sér í landsmálunum?
„Ég hef ekki útilokað það en hef heldur ekki tekið neina ákvörðun. Það verður bara að koma í ljós hvað ég geri. En við Arna eigum alla vega miða á árshátíð Læknafélagsins næsta laugardag,“ segir Dagur og hlær.