Stjórnmálafræðingurinn Ólafur Þ. Harðarson segir það tímamót að framsóknarmaður gegni nú í fyrsta sinn í sögu borgarinnar embætti borgarstjóra og að arfleifð Dags B. Eggertssonar, fráfarandi borgarstjóra, einkennist af grundvallarstefnubreytingu.
Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, tók við borgarstjórastólnum af Degi í fyrradag.
„Það eru tímamót að Einar er fyrstur framsóknarmanna til þess að verða borgarstjóri í allri sögu borgarstjóraembættisins. Það byggist auðvitað á góðum kosningasigri framsóknarmanna í síðustu kosningum,“ segir Ólafur og bætir við að samstarf núverandi meirihluta virðist hafa gengið mjög vel fyrir sig, þó að auðvitað sé áherslumunur á milli flokka.
Hver er arfleifð Dags nú þegar hann hefur látið af borgarstjóraembættinu?
„Það sem er athyglisvert við arfleifð Dags er að hann er búinn að halda saman meirihlutum í borgarstjórn Reykjavíkur síðan 2010 og það er mikið afrek.“
Ólafur bendir á að fylgi Samfylkingarinnar hafi farið mikið upp og niður á þeim árum, en að Degi hafi tekist að mynda meirihluta þrátt fyrir það.
„Meirihlutarnir hafa einnig reynst mjög samstæðir í þeim skilningi að deilur milli flokkanna í þessum meirihlutum hafa nánast ekki komið fyrir,“ segir Ólafur og nefnir að þetta sé mjög frábrugðið kjörtímabilinu á undan tíðs Dags í embætti, þ.e. frá 2006 til 2010.
„Það er sérstaklega áhugavert að valdastaða Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur algjörlega hrunið og það gerðist á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í völd í landsstjórninni,“ segir hann. Gengi flokksins í landsstjórninni sé þannig allt öðruvísi en í borginni.
Hvað hefur breyst í Reykjavík á valdatíð Dags?
„Ef við skoðum stóru línurnar hefur orðið grundvallarstefnubreyting um hvaða sýn menn hafa varðandi uppbyggingu borgarinnar,“ segir Ólafur. Fram að stjórnartíð Dags hafi menn miðað við aðalskipulagið frá 1962.
„Sem gerði eins og þá var siður ráð fyrir því að Reykjavík yrði bílaborg eins og var algengt í útlöndum á þeim tíma.“
Nú segir Ólafur að menn leggi áherslu á þéttingu byggðar, göngustíga, hjólastíga og það að gera borgina „manneskjulegri“. Enn fremur er einkabílnum ekki hampað með sama hætti og áður.
„Þessi stóra stefnubreyting er þó engin séruppfinning Dags eða félaga hans í borgarstjórn. Þetta er þróun sem hefur verið að eiga sér stað í nánast öllum borgum um allan heim. Bæði í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum.“
Í því samhengi nefnir Ólafur innbyrðis deilur í Sjálfstæðisflokkinum, þar sem tekist hefur verið á um þessa stefnubreytingu: „Það hefur verið ágreiningur innan flokksins um hvort menn eigi að aðhyllast gömlu sýnina eða nýju sýnina.“
Þá bendir hann á þverpólitísku sáttina sem myndaðist á sínum tíma á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Gísla Marteins Baldurssonar og Dags þegar þessi nýja stefnubreyting var að fara af stað.
„Þessi þrjú unnu mjög þétt saman að breytingum í þá átt sem varð síðan meginstefnan í borginni,“ segir hann og bætir við að sú samvinna hafi til dæmis komið fram þegar efnt var til samkeppna um skipulag í póstnúmerinu 102 í Vatnsmýri.
Myndirðu þá segja að arfleið Dags sé þá heldur hugmyndafræðileg heldur en veraldleg?
„Hún er hvoru tveggja. Hún er hugmyndafræðileg að því leytinu til að hann talar fyrir þessari nýju sýn og hefur reyndar skrifa bók um hana,“ svarar Ólafur og bendir á að margir deili þessari sýn og tali skilmerkilega fyrir henni.
„Ég myndi samt ekki segja að arfleifð hans birtist bara í hugmyndafræðinni, en ekki í verkum, því ef við skoðum verkin síðan 2010 þá eru þau gríðarleg. Það hefur verið gríðarleg uppbygging á húsnæði þó sumir vilji meina að ekki nóg hafi verið gert.“
Í því samhengi nefnir Ólafur sem dæmi nýja miðbæinn í kringum Hörpu og segir það vera róttæka breytingu á heildarsvip borgarinnar.