Bjarni: Hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll

Bjarni segir það óboðlegt að Reykjavíkurborg veiti leyfi fyrir mótmælunum.
Bjarni segir það óboðlegt að Reykjavíkurborg veiti leyfi fyrir mótmælunum. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra gagnrýnir tjaldbúðir Palestínumanna á Austurvelli harkalega og segir þær „hörmung að sjá“. Hann telur tilefni til þess auka eftirlit á landamærum og styrkja lögregluna með auknum heimildum í baráttu gegn „alþjóðlegri brotastarfsemi“.

„Það er hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll sem nú hafa staðið þar síðan 27. desember síðstliðinn. Það er óboðlegt með öllu að Reykjavíkurborg hafi gefið leyfi fyrir tjaldbúðunum á þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingis,“ skrifar Bjarni á Facebook um tjaldbúðir Palestínumanna á Austurvelli. 

Eins og fram hef­ur komið í um­fjöll­un mbl.is eru kröf­ur mótmælendanna sem dvelja á Aust­ur­velli þríþætt­ar: Að stjórn­völd standi við fjöl­skyldu­sam­ein­ing­ar, að palestínskt flótta­fólk sem hingað er komið fái hæli og að ráðherr­ar verði við ósk þeirra um fund, þar á meðal Bjarna.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert með hefðbundin mótmæli að gera

„Í gær beit Reykjavíkurborg höfuðið af skömminni með því að framlengja leyfið. Það má gera ráð fyrir að það hafi verið hugsað í þeim tilgangi að tryggja að tjöldin stæðu þarna að lágmarki fram yfir samkomudag þingsins í upphafi næstu viku,“ heldur Bjarni áfram.

Hann segir að „þessar dapurlegu tjaldbúðir“ hafi ekkert með hefðbundin mótmæli að gera sem er öng hefð er fyrir að geti farið fram á Austurvelli.
Tjaldbúðirnar hafa staðið frá 27. desember.
Tjaldbúðirnar hafa staðið frá 27. desember. mbl.is/Óttar

Engum ætti að líða að sjá palestínska fána við Alþingi

Bjarni gagnrýnir Reykjavíkurborg fyrir að leyfa mótmælendum að koma sér fyrir í tjaldbúðum í „heilan mánuð“. Hann segist ekkert gefa fyrir breytt skilyrði sem fylgja framlengingu leyfisins.

Mótmælendur hafa flaggað fjölda palestínskra fána og fest þá á lágreista ljósastaura vallarins.

„Engum ætti að líðast að flagga nokkrum þjóðfána fyrir framan Alþingi Íslands svo vikum skipti til að mótmæla íslenskum stjórnvöldum. Hvað þá að festa slíka fána á ljósastaura og annað lauslegt og láta þá hanga þar svo vikum skipti,“

Hann segir það „óskiljanlegt“ að mótmælin hafi fengið að viðgangast „og hvað þá að Reykjavíkurborg leggi sérstaka blessun yfir flöggun fánans“ við framlengingu leyfisins.

Palestínskir fánar blaka á lágreistum ljósastaurum við Austurvöll.
Palestínskir fánar blaka á lágreistum ljósastaurum við Austurvöll. mbl.is/Óttar

„Margfalt fleiri umsóknir hælisleitenda en nágrannaríkin“

„Þeir sem mótmæla eru í landi sem fær margfalt fleiri umsóknir hælisleitenda en nágrannaríkin,“ fullyrðir Bjarni, sem segir að hærra hlutfall umsókna sé jafnframt tekið til efnislegrar meðferðar hér með jákvæðri niðurstöðu og að ekkert Norðurlandanna hefur tekið við fleiri Palestínumönnum en Ísland undanfarið.

Þá segir utanríkisráðherra að ekkert annað land hafa tekið til flýtimeðferðar beiðnir um fjölskyldusameiningar eftir 7. október, þegar Hamas-liðar framkvæmdu hryðjuverkaárás í Ísrael og drápu um 1.140 manns, samkvæmt talningu AFP fréttaveitunnar.

„Þessi hópur krefst þess nú að íslensk stjórnvöld gangi einnig lengra en allar nágrannaþjóðir til þess að tryggja að það fólk komist frá Gaza,“ bætir Bjarni við.

Auka þarf eftirlit á landamærum“

Bjarni heldur áfram: „Það sem næst þarf að gerast í þessum málaflokki er að herða reglur um hælisleitendamál og samræma því sem gerist hjá nágrannaþjóðum. Auka þarf eftirlit á landamærum.“

Hann segir að núverandi fyrirkomulag sé „algerlega komið úr böndunum“, hvað varðar kostnað og fjölda umsókna.

Vill styrkja lögregluna

„Innviðir okkar [eru] komnir að þolmörkum og á því þingi sem tekur aftur til starfa á mánudaginn fram á sumar skiptir öllu að á þessum málum verði tekið af festu og öryggi,“ bætir utanríkisráðherra við.

Bjarni segir að Alþingi hafi ítrekað brugðist og hafnað tillögum dómsmálaráðherra sem m.a. hafa átt að taka á þessari stöðu, þótt nokkur jákvæð skref hafi verið tekin.

„Samhliða þessu þarf að styrkja lögregluna m.a. með auknum heimildum í baráttunni [svo] gegn brotastarfsemi, þ.m.t. alþjóðlegri brotastarfsemi.“

Frá því að stríðið á Gasa­ströndinni hófst þann 7. októ­ber hafa tæp­lega 25 þúsund manns verið drepn­ir í loft­árás­um Ísra­els­manna, sam­kvæmt yf­ir­völd­um á Gasa, sem Ham­as stýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert