Ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna hafa ekki svarað símtölum né fyrirspurnum mbl.is í kjölfar þess að Flokkur fólksins tilkynnti fyrir yfir sólarhring að vantrauststillaga yrði lögð fram á hendur matvælaráðherra er þing kemur saman á morgun.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fullyrti það við fréttastofu í gær að hún myndi leggja fram vantrauststillögu gegn Svandísi á fyrsta degi nýs þings.
Þingflokksformenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins segja boltann vera hjá Vinstri grænum og geta hvorugir fullyrt að allir þingmenn sinna flokka muni verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vantrausti ef sú tillaga verður lögð fram.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is í gær að boltinn væri hjá Vinstri grænum en gat þó ekki svarað því beint hvort allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu verja Svandísi.
„Það er enn á borði VG hvernig þau hyggjast axla ábyrgð á þessu áliti, en ég verð nú að fá að segja að mér þykir orðið gagnrýnivert hvað það hefur tekið langan tíma,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is.
Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, gat heldur ekki svarað því beint hvort að allir þingmenn Framsóknar myndu verja Svandísi vantrausti ef kjósa þyrfti um slíka tillögu.
„Það fer bara eftir því hver atburðarásin verður núna næsta sólarhring og sólarhringa. Við höfum beint þessu til Vinstri grænna og erum að kalla eftir viðbrögðum þaðan og það verður bara að sjá hvað gerist þar í framhaldinu.“
Þeir þingflokkar sem hafa boðað stuðning sinn við boðaða tillögu eru Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Sömuleiðis segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, að hann eigi erfitt með að sjá fyrir sér að Samfylkingin verji Svandísi.
Þingflokksformaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, segir að þingflokkurinn muni funda ef tillagan kemur fram og taka ákvörðun í kjölfarið. Hafði Viðreisn þó gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin myndi leysa sín mál sjálf.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, gefur ekkert upp um það hvernig Píratar myndu kjósa ef kosið yrði um vantrauststillögu og sagði hann við mbl.is í gær:
„Það kemur bara í ljós á þriðjudaginn. Það er gaman að hafa þetta spennandi.“
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, svaraði fyrirspurn mbl.is um viðtal er snýr að vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra og aðgerðum vegna Grindavík, á þá leið að þingflokkurinn hefði fundað síðastliðinn föstudag um málefni Grindavíkur. Þá myndi þingflokkurinn sömuleiðis funda á morgun, líkt og alla aðra mánudaga.