Enn er allt á huldu um hversu mikið tjónið í Grindavík af völdum eldsumbrota og jarðhræringa er. Margt bendir til að um sé að ræða mesta tjón af völdum náttúruhamfara í sögu landsins.
Í desember síðastliðnum, áður en jörð fór að skjálfa að nýju og þrjár gossprungur opnuðust með skelfilegum afleiðingum ofan Grindavíkur, mat forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ) mögulegt tjón í bæjarfélaginu upp á 10 milljarða króna. Síðan þá hefur jörðin undir bænum gliðnað enn frekar og hraun runnið inn í bæinn. Því er ljóst að tjónið er mun meira. Allt er þó á huldu um endanlega tjónsupphæð, enda er atburðunum á Reykjanesskaga ekki lokið. Á það benti Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður NTÍ á í Spursmálum síðastiðinn föstudag.
Samkvæmt því sem fram hefur komið er heildar brunabótamat allra fasteigna í Grindavík 153 milljarðar króna. NTÍ á í sjóðum sínum um 55 milljarða króna og þá gera endurtryggingasamningar ráð fyrir allt að 45 milljarða greiðslu úr þeirri átt, séu skilmálar þeirra samninga uppfylltir. Sem stendur er ekki ljóst hvernig meta skuli þær fasteignir sem ekki hafa orðið fyrir beinu, sjáanlegu tjóni af völdum jarðhræringa eða -elda, jafnvel þótt komist verði að þeirri niðurstöðu að þær standi á svæði sem teljist óbyggilegt.
Í fyrrnefndu viðtali við stjórnarformann NTÍ kemur fram að ef tjón falli á sjóðinn sem nemi hærri fjárhæð en þeirri sem til er í sjóðnum auk endurtrygginga geri lögin ráð fyrir að sjóðurinn geti tekið lán með heimild yfirvalda.
Samkvæmt lögum um NTÍ takmarkast heildargreiðsluskylda sjóðsins við 1% af heildar vátryggingarfjárhæð sem í gildi eru hér á landi á þeim tíma þegar atburðurinn á sér stað. Samkvæmt nýjasta ársreikningi NTÍ, sem er fyrir árið 2022 kemur fram að í ágúst 2022 hafi sú fjárhæð numið 18.317 milljörðum króna og því ljóst að heildar brunabótamat þeirra fasteigna sem standa innan Grindavíkur er vel innan við mörkin sem lögin kveða á um.
Samkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu í liðinni viku námu greiðslur Viðlagasjóðs, vegna eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum árið 1973 í heildina 55 milljörðum króna að núvirði. Verði Grindavíkurbær dæmdur óbyggilegur er því ljóst að umfang tjónsins þar yrði um þrefalt meira en raunin varð fyrir rúmri hálfri öld í Eyjum.
Hvort sem litið er til hinna löngu liðnu atburða eða þess ástands sem nú er komið upp er ljóst að allar forsendur NTÍ gera ráð fyrir því að mun miklu minni atburðir lendi á borði sjóðsins. Þannig segir í ársreikningi hans:
„Niðurstöður áhættumats vegna jarðskjálfta benda til að heildargreiðslur tjónabóta og matskostnaðar í atburði sem hefur 200 ára meðal endurkomutíma sé um eða yfir 25 milljarðar kr. NTÍ hefur metið áhrif allra stórra jarðskjálfta sem orðið hafa á Íslandi síðustu 300 ár. Matið byggir á rannsókn á tjónnæmi sem unnið var í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandið árið 2000 og 2008 og miðast við núverandi virði og staðsetningu vátryggðra eigna.“
Þá segir að sjóðurinn sé í stakk búinn til að takast á hendur mun stærri atburði en sem nemi þessu mati, eða allt að tvöfalt stærri. Verði Grindavík metin óbyggileg er hins vegar um að ræða atburð sem er sexfalt stærri að umfangi en fyrrgreint mat gerir ráð fyrir og þrefalt meira en það sem sjóðurinn gerir ráð fyrir að geta tekið á sig. Þannig segir í ársreikningnum:
„NTÍ er í stakk búin til að takast á við meira en tvöfalt hærra tjón en stærstu sögulegu jarðskjálftar landsins hefðu valdið miðað við núverandi virði og staðsetningu vátryggðra eigna.“
Samkvæmt fyrrnefndum ársreikningi nam eigið fé NTÍ í árslok 2022 53,9 milljörðum króna. Tap varð af rekstri sjóðsins það ár upp á 892 milljónir króna. Fól það í sér talsverðan viðsnúning frá fyrra ári þegar afkoman var jákvæð um 4,8 milljarða króna. Skýrist þessi breytta staða af því að eignir sjóðsins eru ávaxtaðar með fjárfestingum og árið 2022 voru fjármunatekjur sjóðsins neikvæðar um 4,6 milljarða en höfðu verið jákvæðar um 3,3 milljarða árið áður.
Sé aðeins litið til iðgjalda sjóðsins, sem er ákveðið hlutfall af brunabótamati vátryggðra verðmæta í landinu og ákveðið hlutfall af reiknuðu endurstofnverði mannvirkja á borð við veitur, raforkuvirki, hafnarmannvirki, skíðalyftu og brýr sem eru lengri en 50 metrar, námu þau ríflega 4 milljörðum króna árið 2022 og höfðu hækkað um 300 milljónir milli ára.
Sé miðað við atburði með 200 ára endurkomutíma (líkt og það er orðað í ársreikningi stofnunarinnar) þá þarf iðgjöld ríflega 6 ára hjá sjóðnum til þess að dekka slíkt tjón og að því gefnu að engin önnur minni tjón falli að sjóðinn á sama tíma. Sé miðað við altjón af völdum hamfaranna í Grindavík þyrftu iðgjöld ríflega 38 ára til þess að dekka slíkt bylmingshögg.
Viðtalið við Sigurð Kára Kristjánsson, stjórnarformann NÍT má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: