Skvettu rauðri málningu á utanríkisráðuneytið

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir að það hafi þurft að afmá í morgun ummerki skemmdarverka á utanríkisráðuneytinu. Bjarni segir að tveir hettuklæddir menn hafi mætt þangað snemma morguns og slettu rauðri málningu á bygginguna.

„Hreinsun er lokið og málið til meðferðar hjá lögreglu. Svona framkoma er ólíðandi og á ekkert skylt við þau sjálfsögðu réttindi í lýðræðisríki að fólk koma saman og mótmæli, eins og nú er boðað að gerist klukkan 15 fyrir framan þinghúsið,“ skrifar Bjarni í færslu á Facebook. 

Þar fjallar hann áfram um þær tjaldbúðir og mótmæli sem hafa staðið yfir vikum saman á Austurvelli. 

Hann segir að um þessar mundir hafi mikil skautun umræðunnar orðið vaxandi áhyggjuefni víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Nú sé svo komið að hann telji að menn þurfi að hafa raunverulegar áhyggjur af þessu sama á Íslandi.

Fólki frjálst að hafa aðrar skoðanir

„Fyrir helgi gangrýndi ég ákvörðun Reykjavíkurborgar um að láta það viðgangast svo vikum skipti að fólk dveldist dag og nótt í tjöldum á Austurvelli. Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega óásættanlegt að mótmælendur tjaldi og gisti á Austurvelli um lengri tíma. Mér heyrist að borgarstjóri sé loks kominn á þá skoðun einnig. Ég er sömuleiðis alfarið á móti því að erlendir þjóðfánar blakti fyrir framan þjóðþingið daga og nætur vikum saman.
Fólki er frjálst að hafa á þessu aðrar skoðanir. Og sannarlega getur fólk einnig verið ósammála mér um að hælisleitendakerfi okkar sé komið í mikinn vanda, bæði hvað varðar kostnað og innviði samfélagsins,“ skrifar Bjarni.

Þá telur hann það vera algjört þrot lýðræðislegrar umræðu þegar það sé sagt að þessi sjónarmið sýni skort á samúð og skilningi á aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu.

Hefur lýst samúð og skilningi

„Ég hef þvert á móti ítrekað lýst samúð okkar og skilningi á stöðu fólks sem lifir í ótta um afdrif ættingja sinna á fjarlægum slóðum. Ísland hefur beitt sér af krafti alls staðar sem því er við komið og við höfum ekki látið okkar eftir liggja í mótttöku og stuðningi við fólk frá Gaza - þvert á móti,“ skrifar Bjarni

Þá vísar hann til viðtals við Semu Erlu Serdaroglu, aðjúnkts við Háskóla Íslands og stofnandi Solaris, í hádegisfréttum RÚV, að hann hafi haft uppi óhróður um hóp fólks og sé í reynd að hvetja til andúðar og ofbeldis.

Fráleitar ásakanir

„Hér erum við komin með ágætt dæmi um skautun í opinberri umræðu þar sem ábendingar um augljósa galla í hælisleitendakerfinu leiða til ásakana um skort á allri samkennd, rasisma og hvatningu til ofbeldis,“ skrifar Bjarni. 

Hann bætir við að ásakanir Semu um að hann hafi mögulega gerst brotlegur við almenn hegningarlög með því að segja skoðun sína á stöðu mála á Austurvelli og almennt í hælisleitendamálum séu fráleitar og dæmi sig sjálfar.

Fólk haldi sig innan ramma laganna

„Ég legg áherslu á að fólk haldi sig innan ramma laganna. Að sletta málningu á opinberar byggingar er til dæmis skýrt lögbrot. Í morgun þurfti að afmá ummerki skemmdarverka á Utanríkisráðuneytinu. Tveir hettuklæddir menn mættu þangað snemma morguns og slettu rauðri málningu á bygginguna. Hreinsun er lokið og málið til meðferðar hjá lögreglu. Svona framkoma er ólíðandi og á ekkert skylt við þau sjálfsögðu réttindi í lýðræðisríki að fólk koma saman og mótmæli, eins og nú er boðað að gerist klukkan 15 fyrir framan þinghúsið,“ skrifar Bjarni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert