Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir ríkissjóð vel ráða við aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar fyrir Grindvíkinga, það þurfi þó hugsanlega að forgangsraða og líklegt að fórnarkostnaðurinn verði einhver.
Til að mynda segir hann aðgerðarpakkann hafa áhrif á getu ríkisins til að teygja sig í átt að kröfum annarra sem á sama tíma óska eftir því að ríkið leggi eitthvað að mörkum. Á hann þar við ákall um að yfirvöld komi inn í þjóðarsátt þar sem meðal annars er unnið að því að styrkja tilfærslukerfið. Þetta sagði Bjarni í Silfrinu á Rúv í gærkvöldi.
„Það eru uppi mjög háværar kröfur um að ríkið leggi mikla fjármuni inn í tilfærslukerfin til að loka kjaraviðræðunni sem að stendur yfir núna og menn segja bara beint út að ef að ríkið stendur ekki við það sem að við viljum að ríkið geri að þá verða engir kjarasamningar,“ segir Bjarni og minnir á að ríkið sé við öll, skattgreiðendur og öll starfsemi í landinu.
Þá segir hann að þegar ríkið stendur frammi fyrir jafn stóru máli og Grindavíkurmálið er, þá hafi það áhrif á getu ríkissjóðs til að teygja sig í átt að kröfum annarra.
„Það væri óskynsamlegt af öllum aðilum að ætlast til þess að þeir yrðu teknir út úr því stóra samhengi sem við öll erum föst í.“
Þó Bjarni telji ríkissjóð ráða við umræddan aðgerðarpakka þá kveðst hann hafa áhyggjur af því, ef rétt reynist sem jarðvísindamenn segja að Reykjanesskaginn sé að vakna, að hver hrina ógni innviðum eða búsvæðum.
Segir hann því geta fylgt meiri háttar raskanir til að mynda á atvinnustarfsemi sem miklu máli skiptir fyrir þjóðarbúið. Í því samhengi nefnir hann höfnina í Grindavík, Bláa lónið og Svartsengi.