Grófu upp „reffilegan karl“

Ásta Hermannsdóttir fornleifafræðingur, fjærst á myndinni, ásamt þeim Hirti Tý …
Ásta Hermannsdóttir fornleifafræðingur, fjærst á myndinni, ásamt þeim Hirti Tý Björnssyni og Sigurði Snorra Gunnarssyni, starfsmönnum Rarik, og Jóni Grétarssyni, bónda á Hóli. Ljósmynd/Guðmundur Stefán Sigurðsson

„Þetta voru bein tveggja karlmanna sem komu þarna í ljós þegar verið var að grafa fyrir heimtaug heim að bænum,“ segir Guðmundur Stefán Sigurðsson, minjavörður Norðurlands vestra, í samtali við mbl.is um beinafund í landi Hóls í Sæmundarhlíð í Skagafirði í ágúst í fyrra.

Það voru starfsmenn Rarik sem komu niður á beinin er þeir grófu fyrir heimtaug að Hóli en þeir ku vera óvenjufundvísir á gamla kirkjugarða eins og héraðsfréttablaðið Feykir og mbl.is fjölluðu um í kjölfar fundarins í ágúst. Feykir sagði enn fremur af framhaldi málsins í september og Minjastofnun Íslands skrifaði um það í desember.

Fýsti mbl.is að vita hvað komið hefði út úr rannsóknum fræðinga á beinunum og hafði minjavörður þar frá ýmsu að segja en auk mannabeina hafa mjög heillegir svínskjálkar frá því fyrir Heklugosið 1104 fundist þar nyrðra. Byrjum á mennska hlutanum.

Karlar grafnir sunnan kirkju

„Fyrst komu upp einhver bein sem þeir báru ekki kennsl á, þeir hafa sennilega farið í gegnum fótaenda grafarinnar,“ útskýrir minjavörðurinn, „svo þegar þeir enda á hauskúpu var ekki um að villast að þarna var um mannagröf að ræða.“

Farið hafi verið í gegnum fótaenda annarrar grafarinnar en höfuðenda hinnar og einhver spjöll orðið á beinunum við þetta og hafi rannsakendur því ekki heilar beinagrindur til athugunar úr gröfinni við Hól.

„En það er hægt að sjá býsna mikið af sumum beinum, til dæmis hægt að greina hvort beinin tilheyri karli eða konu, höfuðbein eru mjög auðgreinanleg að því leyti og því auðvelt að sjá að þarna var um tvo karla að ræða, það hef ég fengið staðfest frá mannabeinafræðingum. Það nýttist okkur til að áætla hugsanlega legu garðsins þar sem það var hefð í kaþólskunni að karlar voru grafnir sunnan kirkju og konur norðan við,“ segir Guðmundur frá.

Rusl frá landnámi

Þannig hafi mátt áætla að meirihluti kirkjugarðsins væri norðan við framkvæmdir Rarik og hafi skurðurinn því verið færður til suðurs og nýr skurður grafinn þar. „Þá komu í ljós tvö garðlög sem voru bæði frá því fyrir 1104, gjóskan frá 1104 [stærsta Heklugosi sem orðið hefur á sögutíma] lá óhreyfð yfir þessum garðlögum,“ segir Guðmundur frá.

Annað garðlagið, sem tilheyrir kirkjugarðinum, hafi verið orðið mjög ógreinilegt þegar askan frá gosinu árið 1300 féll. Hinn garðurinn hafi verið mjög heillegur við gosið árið 1104, „og utan við garðinn var öskuhaugur þar sem rusli hefur verið kastað frá þessum bæ og er þar þá hugsanlega um að ræða rusl frá landnámi og þangað til einhvern tímann fyrir 1104. Í þessu ruslalagi var mikið af dýrabeinum, til dæmis fiskbein, kindabein eða bein úr annaðhvort geitum eða sauðfé, það er erfitt að greina þar á milli, einhver stórgripabein líka og svo voru þarna tveir svínskjálkar, mjög vel varðveittir,“ segir Guðmundur af forvitnilegum menjum í ruslahaugnum gamla.

Annar tveggja svínskjálka sem fundust í ruslahaugi við Hól sem …
Annar tveggja svínskjálka sem fundust í ruslahaugi við Hól sem gæti geymt sorp allt frá landnámi og fram til ársins 1104. Kjálkarnir eru óvenjuvel varðveittir þrátt fyrir súran jarðveg þar sem þeir hafa legið í ösku í ruslahaugnum. Ljósmynd/Guðmundur Stefán Sigurðsson

Séu beinin úr hinum íslenska svínastofni sem virðist hafa verið býsna útbreiddur í bústofni landsmanna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og fram á miðja sextándu öld. „Svo kemur þarna ákveðið kuldaskeið, það fer að kólna frá tólftu og fram á þrettándu öld og verður svo enn kaldara um miðja fimmtándu öldina og það virðist hafa gert út af við þennan íslenska svínastofn, hann virðist vera dáinn út um 1600,“ segir fornleifafræðingurinn.

Basískur jarðvegur eða súr 

Fjöldi svínatengdra örnefna vitni um búskap þennan auk þess sem víða í Íslendingasögum sé minnst á svín sem virðist hafa verið haldin eins og kindur nú til dags, verið sett á fjall og gengið töluvert laus.

Guðmundur segir svínakjálkana frá Hóli óvenjuvel varðveitta. „Öll varðveisla á beinum á þessum stað er mjög góð, ég var einmitt að ræða það við Jón Grétarsson, bónda þarna á bænum, og spyrja hann út í jarðveginn þarna á svæðinu. Hann sagði að þetta kæmi honum á óvart þar sem bein varðveitist yfirleitt betur í basískum jarðvegi á meðan aðrar lífrænar leifar eins og leður og hár – og þar af leiðandi textíll til dæmis – varðveitist betur í súrum jarðvegi.“

Séu jarðræktarsvæðin á Hóli yfirleitt fremur súr en á bæjarstæðinu hafi mikilli ösku frá eldstæði eða eldstæðum verið varpað í ruslahauginn. „Askan er fremur basísk svo það er líklega hún sem er lykillinn að þessari góðu varðveislu og mannabústaðirnir sem eru þarna í kring. Svínsbeinin hafa varðveist í móösku og viðarösku sem hefur þjappast umhverfis þau,“ útskýrir Guðmundur.

Fundarstaðurinn og bæjarhúsin á Hóli séð úr lofti.
Fundarstaðurinn og bæjarhúsin á Hóli séð úr lofti. Ljósmynd/Guðmundur Stefán Sigurðsson

Stórir kjálkar og skögultennur

Hann kveður áhugavert að sjá þúsund ára gamla svínskjálka sem séu mun meiri um sig en kjálkar íslenskra svína nútímans. „Þetta minnir meira á myndir sem maður sér í dag af villisvínum með stóra kjálka og skögultennur en ég þekki það ekki persónulega hvernig svínin voru á þessum tíma og hver stærð þeirra var,“ segir Guðmundur af kjálkunum stórvöxnu frá Hóli.

Eins séu mannabeinin vel varðveitt en ítarleg rannsókn hafi þó ekki farið fram á þeim enn sem komið er. „Þetta eru auðvitað bara hlutar af beinagrindum svo maður getur nú ekki sagt mikið um þessa einstaklinga,“ heldur fornleifafræðingurinn áfram en getur þó sagt töluvert um karlmanninn sem átti þá beinagrindina sem skaddaðist að ofanverðu við skurðgröftinn. Var þar um heillega höfuðkúpu að ræða og handarbein.

„Sá maður hafði grófa andlitsdrætti og breiða kjálka, hefur verið reffilegur karl, en með mjög slitnar tennur sem segir manni dálítið um aldur hans, hann hefur verið kominn vel yfir miðjan aldur að öllum líkindum. Það er þannig með bein og tennur frá þessum tíma, tíundu öld eða fyrr, að maður sér ekki tannskemmdir eins og á seinni tímum þegar menn eru farnir að nota sykur og mataræðið fer að breytast,“ segir Guðmundur af tannheilsu fornmanna.

Slípaðar tennur að framanverðu

Á þeim tíma sem hér um ræðir hafi tannsteinn mestmegnis verið að hrjá íslenska alþýðu og megi oft sjá mikla uppsöfnun hans meðfram gómum. Segir Guðmundur það athyglisvert að beinagrindin sem hér ræðir um hafi verið með slípaðar tennur að framanverðu í neðri gómi, ekki á sjálfum slitfletinum.

Í forgrunni má sjá höfuðkúpu annars mannanna tveggja hverra jarðnesku …
Í forgrunni má sjá höfuðkúpu annars mannanna tveggja hverra jarðnesku leifar fundust á Hóli. Lifandi einstaklingar á myndinni eru Sigurður Snorri og Hjörtur Týr frá Rarik og Jón bóndi Grétarsson. Ljósmynd/Ásta Hermannsdóttir


„Hvort það hafi verið í einhverri viðleitni til að ná þessum tannsteini eða eitthvað sem þessi maður hafi gert tengt handavinnu eða handverki veit ég ekki en þetta er forvitnilegt og þeir tóku eftir þessu mannabeinafræðingarnir,“ segir Guðmundur frá og bætir því við að maðurinn sem lá í landi Hóls um svo árhundruðum skipti hafi verið allmikill vexti.

„Þetta virðist hafa verið maður vel við vöxt, það sýna upphandleggsbeinin. Ég er nú rúmlega einn og áttatíu á hæð og mér sýnist þetta nú vera heldur lengra en upphandleggurinn á mér,“ segir minjavörður og játar aðspurður að fornmenn hafi þó alla jafna verið lágvaxnari en nútímafólk.

„Jú, meðalhæðin var töluvert minni fram eftir öllu og í raun alveg fram á tuttugustu öld, þá tekur hæð fólks kipp en inni á milli hafa auðvitað verið hávaxnir menn og konur,“ segir Guðmundur og bætir því við að fleiri grafir hafi verið undir 1104-öskulaginu í garðinum sem gefi fornleifafræðingum vitneskju um að byrjað hafi verið að jarðsetja þar fyrir árið 1100 og því líklega haldið áfram eftir þau aldamót.

Gögnin tiltæk til frekari úrvinnslu

En hvaða niðurstöðu væntir hann úr frekari rannsóknum á beinunum nú, þegar það sem hann hefur þegar lýst liggur fyrir?

„Þetta er alltaf erfitt með rannsóknir sem koma svona óvænt upp, það var ekki verið að fara í þessa rannsókn í vísindaskyni eða þess háttar en gögnin sem verða til eru þá tiltæk til frekari úrvinnslu, hins vegar liggur engin rannsóknaráætlun fyrir um framhaldið en þegar bein eru svona vel varðveitt geta þau sagt okkur heilmikið um hvernig lífsviðurværi fólks var, hvað það borðaði, hvaða sjúkdómar voru að hrjá það og hvort einkenni séu um slit sem rekja megi til ákveðinna athafna. Svona grafir eru náttúrulega ákveðnir fjársjóðir fyrir fornleifafræðinga,“ segir Guðmundur Stefán Sigurðsson, minjavörður Norðurlands vestra, undir lokin.

Eins og staðan sé viti hann þó ekki hvort ráðist verði í áframhaldandi rannsóknir beinanna frá Hóli í nánustu framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert