Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir ákvörðun um að fresta ákvörðun um þátttöku Íslands í Eurovision hafa verið tekna í samráði við þá listamenn sem taka þátt í forkeppni Íslands, Söngvakeppni sjónvarpsins.
„Ákvörðunin sem að síðan verður tekin er að sjálfsögðu ákvörðun Rúv og við munum gera það, eins og alltaf, í samráði við viðkomandi flytjanda og lagahöfund,“ segir Stefán spurður út í þá gagnrýni sem ákvörðunin hefur fengið um að ábyrgðinni sé skellt á listafólk.
Stefán greindi frá því í gær að ákvörðun hefði verið tekin um að rjúfa tengsl milli Söngvakeppninnar, sem haldin er hér heima, og þátttöku Íslands í Eurovision. Því væri ekki ljóst hvort Ísland muni taka þátt í Eurovision heldur yrði ákvörðunin tekin í samráði við þann sem stendur uppi sem sigurvegari íslensku söngvakeppninnar.
„Við erum auðvitað mjög vel meðvituð um þá umræðu sem hefur verið í gangi. Bæði tekið við undirskriftalistum frá almenningi og áskorun frá tónlistarfólki og tónskáldum og slíkt, eins og ég hef sagt þá hlustum við vel á það og tökum það alvarlega,“ segir hann spurður á hvaða grundvelli ákvörðunin hafi verið tekin.
Þá segir hann jafnframt að Rúv hafi átt samtal við væntanlega keppendur í Söngvakeppninni. Eftir ítarlegt samtal við keppendur segir Stefán niðurstöðuna hafa verið að nálgast ákvörðunina með þessum hætti.
„Við viljum öll halda glæsilega söngvakeppni, lyfta upp íslenskri tónlist og flytjendum og sýna öll þau glæsilegu lög sem búið er að velja til þátttöku í keppninni. Þess vegna var það niðurstaðan að gera þetta með þessum hætti, í rauninni að fresta ákvörðuninni fram yfir söngvakeppnina.“
Spurður hvort það sé á endanum þess sem stendur uppi sem sigurvegari íslensku söngvakeppninnar að taka ákvörðun segir Stefán það ekki vera. Það sé Rúv að taka ákvörðunina, en hún verði þó tekin í samráði við viðkomandi flytjanda og lagahöfund.
Fólk hefur skilið það sem svo að það verði sigurvegarans að taka ákvörðunina.
„Nei nei og við höfum alltaf sagt það skýrt, þetta er ákvörðun Rúv og við munum horfa til margra þátt í þessu og stöðu mála þegar þetta liggur fyrir í mars. Það er margt sem að getur gerst fram að þeim tímapunkti. Við viljum heldur ekki brenna brýr að baki okkur á þessum tímapunkti sem að myndi útiloka þátttöku okkar í vor ef að aðstæður breytast í grundvallaratriðum,“ segir Stefán og bætir við:
„Við vitum ekki nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér og þess vegna leikum við þennan biðleik núna í samráði við hugsanlega keppendur sem verða kynntir á laugardaginn kemur.“