Breiðfylking stéttafélaganna hefur ákveðið að vísa kjaradeilunni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara eftir að upp úr slitnaði í viðræðum samningsaðila í Karphúsinu í dag.
Í yfirlýsingu sem Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér segir:
„Samningsmarkmið í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði hefur verið að gera kjarasamninga sem skapa skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti.
Svigrúm í hagkerfinu er ráðandi breyta ef íslenskur vinnumarkaður vill ná markmiðum sínum um efnahagslegan stöðugleika. Það er hins vegar ekki eina breytan því það skiptir einnig höfuðmáli að mótuð verði heildstæð launastefna sem sátt ríkir um í fyrstu kjarasamningum samningalotunnar. Þótt viðræðurnar hafi tekið á sig breytta mynd þá eru Samtök atvinnulífsins reiðubúin sem fyrr að halda samtalinu áfram.“
Yfirlýsingin heldur áfram:
„Samningsaðilar lögðu upp með nýtt vinnulag í þessum viðræðum með það að markmiði að stuðla að aukinni sátt. Þrátt fyrir einlægan samningsvilja allra aðila liggur nú fyrir að ekki verður lengra haldið með þessar viðræður í óbreyttu formi.
Samtök atvinnulífsins eru þakklát aðildarfyrirtækjum sínum sem hafa trú á að hægt sé að ná skynsamlegum kjarasamningum og sýnt það í verki með yfirlýsingum um að haldið verði aftur af verðhækkunum eins og frekast er unnt. Opinberir aðilar hafa einnig tekið stór skref og lofað því að endurskoða gjaldskrárhækkanir að því gefnu að samið verði í takt við markmið samningsaðila.
Samtök atvinnulífsins trúa því að hægt sé að móta heildstæða launastefnu sem skapar skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti. Það verður áfram verkefnið.“