„Er að undirstrika stjórnleysi í okkar samfélagi“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að með hugmynd Vilhjálms Birgissonar, um 0% hækk­un launa næstu tólf mánuði í skipt­um fyr­ir niður­fell­ingu gjald­skrár­hækk­ana, sé hann að benda á ómöguleikann í verkefni breiðfylkingarinnar um að ná samningum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

Kjaraviðræður breiðfylkingar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sigldu í strand í fyrrakvöld og vísaði breiðfylkingin kjaradeilunni til ríkissáttasemjara.

„Það er alltaf verið að kalla eftir ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar um að gera hófstillta samninga. Við stigum fram með trúverðugt plan um markmið sem tala inn í það sem er verið að krefjast af okkur og síðan þegar á reynir þá eru aðilar ekki tilbúnir til þess,“ segir Ragnar við mbl.is.

Fengi meira út úr slíkum samningi

Vilhjálmur, sem er formaður Starfsgreinasambandsins, var gestur Spursmála í dag en þar lagði hann til að engar launahækkanir yrðu á vinnumarkaði í 12 mánuði gegn því að opinberir aðilar falli frá öllum gjaldskrárhækkunum sínum sem urðu að veruleika um síðustu áramót.

„Með orðum sínum er Vilhjálmur fyrst og fremst að undirstrika í rauninni stjórnleysi í okkar samfélagi þegar kemur að samfélagsábyrgð gagnvart gjaldskrárhækkunum, hækkunum á vöru og þjónustu sem og opinberum gjöldum,“ segir Ragnar.

Ragnar talar um hækkanir sem hafi orðið. Hann nefnir tryggingafélögin, fasteignagjöldin í Reykjavík sem hafi hækkað um 25 prósent, skólamáltíðir, skólagjöld, kílómetragjald á raf-og tengiltvinnbíla sem stjórnvöld hafa sett á.

„Ef við tökum allar gjaldskrárhækkanir fyrirtækja og stofnana þá held ég að það sé rétt sem Vilhjálmur segir, að fólk fengi meira út úr slíkum samningi sem hann nefnir ef allar þær boðuðu hækkanir sem eru 10 prósent og hærri kæmu sér betur fyrir launafólk heldur en einhverjar krónutölur sem er verið að ræða.“

Höfum lagt okkar spil á borðið

Ragnar Þór segir að Vilhjálmur viti það eins og flestir að það sé ákveðinn ómöguleiki í stöðunni. 

„Við höfum talað um að fara fram með hófsömum hætti og setja þá þak á allar gjaldskrár- og verðhækkanir sem væri bundið við 2,5% eins og var í lífskjarasamningum. Vilhjálmur er að stilla þessu svona upp. Ég hef heyrt hann gera það áður,“ segir Ragnar og bætir því við að það sé ekki endalaust hægt að beina spjótunum að verkalýðshreyfingunni.

Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað samningsaðila á fund. Ragnar segir að hann og félagar hans í breiðfylkingunni séu alveg rólegir. 

„Við höfum lagt okkar spil á borðið og við höfum reynt að fá Samtök atvinnulífsins á þann stað svo hægt sé að fara að semja. Það hefur ekki gengið eftir og boltinn er því hjá SA.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert