Íbúar í Grindavík standa nú fyrir undirskriftasöfnun á island.is í þeim tilgangi að fá bæjarstjórn Grindavíkur til að halda íbúafund.
Mörg mál brenna á Grindvíkingum um þessar mundir og margir þeirra vilja komast í návígi við sína kjörnu fulltrúa í bæjarstjórninni.
„Íbúar Grindavíkur óska eftir því að bæjarstjórn Grindavíkur boði til borgarafundar þar sem mikilvægt er að bæjarstjórn eigi í milliliðalausu samtali við íbúa bæjarins um það ástand sem íbúar Grindavíkur eru nú að ganga í gegnum,“ segir í lýsingu undirskriftasöfnunarinnar.
„Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að öll úrræði fyrir íbúa verði unnin í samráði við Grindavíkurbæ og íbúa Grindavíkur. Bæjarstjórn á að endurspegla vilja íbúa og því er nauðsynlegt að þetta samtal geti átt sér stað strax meðan tillögur ríkisstjórnarinnar eru enn í vinnslu. Á dagskrá borgarafundar verði a.m.k. umræður um tillögur ríkisstjórnar um uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík og vilja íbúa í þeim efnum.“
Þrettán eru skrifaðir fyrir undirskriftarsöfnuninni sem hófst í dag. Á þriðja hundrað hafa þegar skrifað undir.