Bróðir mannsins, sem féll ofan í sprungu í Grindavík 10. janúar og leitað var eftir svo dögum skipti, kallar eftir því að málið verði rannsakað af sjálfstæðum óháðum aðilum.
Segir hann fjölda spurninga ósvarað um aðdraganda, ákvarðanatöku og atburðarás í Grindavík.
Elías Pétursson, bróðir mannsins, staðfestir þetta í samtali við Heimildina. Hann tekur jafnframt fram að markmið slíkrar rannsóknar ætti ekki að vera að draga einhverja einstaklinga til ábyrgðar, heldur að fá fram heiðarlega skoðun svo læra mætti af henni.
Fjölskylda mannsins segist ósátt við hvernig yfirvöld og viðbragðsaðilar stóðu að samskiptum við fjölskylduna, allt frá því leit hófst, meðan á henni stóð og eftir að henni var hætt. Til að mynda hafi fjölskyldan ítrekað fengið fyrstu fréttir af framgangi leitarinnar í fjölmiðlum.