Reykjavíkurborg hefur hafnað umsókn manns til þess að koma upp tjaldi á Austurvelli til þess að mótmæla „valdníðslu matvælaráðherra“.
Maðurinn sem sótti um vildi ekki koma fram undir nafni, en viðurkennir í samtali við mbl.is að hann hafi sótt um til þess að sjá hver viðbrögð borgarinnar yrðu.
Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, skrifstofustjóri stjórnsýslu og gæða sem heyrir undir umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar, segir í samtali við mbl.is að tvær til þrjár umsóknir af þessu tagi hafi ratað inn á borð sviðsins.
Í svari borgarinnar segir að svæðið hafi orðið fyrir miklum ágangi og að það þoli ekki frekar „aðstöðusköpun“ að sinni. Grasið sé í dvala og að litlu megi svo að það skemmist.
Enn fremur vísar borgin til þess að mynda þurfi öryggissvæði vegna niðurtöku jólatrésins.
Borgin segir þá Austurvöll ekki henta vel undir svokallaða aðstöðusköpun, þar sem um sé að ræða vinsælt almannarými.
Mótmælatjöld voru nýlega reist á Austurvelli af hópi Palestínumanna og stóðu tjöldin þar í um mánuð. Þau voru fjarlægð á miðvikudag.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði fyrir viku að honum þætti það ekki eðlilegt að breyta Austurvelli í tjaldbúðir.
Glóey segir að tekin hafi verið ákvörðun um að hafna öllum beiðnum um þessa aðstöðusköpun á Austurvelli í kjölfar nýlegra mótmæla.
„Við vildum þannig gefa okkur smá tíma í umhugsunarfrest og leyfa svæðinu að jafna sig.“
Hún segir að ekki sé til sérstakt viðmið eða verklag við umsóknum af þessu tagi. „Þetta er svolítið nýtt að við séum að fá umsóknir um að setja upp tjöld á Austurvelli.“
Þá bendir hún á að fyrir mótmælum sem slíkum þurfi enginn leyfi og að það sé sjálfsagður réttur manna að efna til mótmæla. „En ef þú ert að setja niður tjald þá er það komið til okkar og við viljum bara gjarnan fá að hugsa þetta og koma almennu verklagi á.“
Í því samhengi segir hún að þau hafi talið best að leggja niður ákveðna línu og hafna öllum umsóknum af þessu tagi í stað þess að leggja mat á hvert mál fyrir sig.
Svar Reykjavíkurborgar má lesa í heild sinni hér að neðan:
„Góðan dag. Umsókn ykkar um aðstöðusköpun á Austurvelli er hafnað. Svæðið hefur orðið fyrir miklum ágangi og þolir ekki frekari aðstöðusköpun að sinni. Gras er í dvala og má við mjög litlu svo það skemmist. Mikilvægt er að hlífa svæðinu þangað til að aðstæður skapist að það fari að ná sér. Þar að auki stendur yfir niðurtaka á jólatré og er nauðsynlegt að mynda öryggissvæði þannig að ekki hljótist af meiðsli eða tjón, verði óhapp. Austurvöllur er ekki svæði sem hentar vel undir aðstöðusköpun, bæði hvað varðar staðsetningu og hlutverk. Um er að ræða vinsælt almannarými og er mikilvægt að tekið sé tillit til mismunandi þarfa þeirra sem svæðið vilja nýta.
Með kveðju
Reykjavík“