Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir mjög alvarlegt þegar ráðist er að lögreglumönnum og þeim hótað, hvort sem er við vinnu eða utan vinnutíma. Hún segir að bregðast verði við þeirri þróun af mikilli festu, meðal annars með því að fjölga lögreglumönnum og bæta vinnuumhverfi þeirra.
Morgunblaðið greindi fyrr í vikunni frá því að lögreglukona hefði þurft að flýja heimili sitt vegna líflátshótana, að kveikt hefði verið í bíl eins lögreglumanns og skemmdir unnar á bíl annars.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu, lýsti áhyggjum af aukinni hörku í samfélaginu í samtali við Morgunblaðið.
„Maður skilur áhyggjur lögreglumanna þegar ráðist er að þeim og nálægt fjölskyldum þeirra. Það eru ákveðin teikn á lofti um að það sé aukin harka og það verður að bregðast við því,“ segir ráðherrann. „Þetta ástand verður ekki liðið. Þetta er hrikaleg staða en er því miður ekki einsdæmi, því lögreglumenn í öðrum löndum eru að glíma við þetta. Okkur bregður við þegar sá veruleiki er allt í einu kominn inn í garð hjá okkur.“
Alls voru skráð 465 útköll hjá sérsveitinni á síðasta ári, þar sem hún var kölluð til vegna vopnaburðar. Fjölgaði þeim um rúman þriðjung frá meðaltali undangenginna þriggja ára.