Það breyttist aldrei neitt

Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er enginn fæddur inn í þetta hlutverk og menn mótast af þeim verkefnum sem þeim eru falin. Sjálfur myndi ég vilja vera borgarstjóri með kaldan haus og hlýtt hjarta. Það skiptir máli að sýna rekstrarlega ábyrgð en um leið þarf að sýna hlýju og skilning á þeim viðkvæmu málaflokkum sem við á sveitarstjórnarstiginu glímum við.“

Þetta segir Einar Þorsteinsson spurður að því hvernig borgarstjóri hann ætli að vera.

Einar starfaði lengi sem blaðamaður og kveðst fyrir vikið hafa kynnst samfélaginu öðruvísi en margir aðrir. „Ég var orðinn þreyttur á að fjalla um alls konar óréttlæti. Það var sama hversu ítarlega maður fjallaði um tiltekin mál þá breyttist ekki neitt og smám saman rann upp fyrir mér ljós – ég þyrfti að fara í pólitík til að komast í aðstöðu til að breyta einhverju.“

– Þetta gerist bara þannig?

„Já, í rauninni. Sem fjölmiðlamaður er maður að þjóna og upplýsa og sýna samfélagið eins og það er. Síðan eru mál sem fylgja manni,“ svarar Einar.

– Má skilja þetta á þann veg að þú hyggist vera borgarstjóri fólksins?

„Já, fyrst og fremst. Auðvitað eru skyldur mínar líka við fyrirtækin og atvinnulífið en í grunninn erum við að vinna fyrir fólkið. „Public servant“ kallast þeir sem fara í stjórnmál í Bandaríkjunum og þannig lít ég á mig, sem þjón almennings.“

Einar ásamt eiginkonu sinni, Millu Ósk Magnúsdóttur, og börnunum, Emil …
Einar ásamt eiginkonu sinni, Millu Ósk Magnúsdóttur, og börnunum, Emil Magnúsi, Soffíu Kristínu og Auði Bertu.

Hafði trú á árangri

Komin er ákveðin fjarlægð á kosningasigurinn sem Framsóknarflokkurinn vann vorið 2022, mörgum að óvörum. Hvernig ætli Einar líti á þennan árangur í dag; kom hann og hans fólk með eitthvað að borðinu sem aðrir voru ekki með?

„Auðvitað var þetta óvissuferð enda hafði Framsókn ekki gengið vel í kosningunum á undan og átti ekki borgarfulltrúa. Eftir að ég kom inn í þetta hafði ég alltaf trú á því að við myndum ná góðum árangri en um leið vissi ég að við yrðum að hafa mikið fyrir því. Við fórum bæði sem hópur og ég einn út í hverfin og töluðum við fólk og skynjuðum þar að það var ákall eftir breytingum og nýju fólki. Ég kom bara til dyranna eins og ég var klæddur og fólk þekkti mig kannski af mínum fyrri störfum, sem ábyggilega hjálpaði. Ég hef frá upphafi þessarar vegferðar verið einlægur – ég vil hjálpa fólkinu í borginni og leysa þau vandamál sem koma upp.“

Hægt að drepa aftur og aftur

Einar var ekki óumdeildur fréttamaður. Seinustu árin var hann oftar en ekki einn með viðmælanda sínum í settinu og veigraði sér ekki við að spyrja erfiðra spurninga og spyrja jafnvel aftur ef ekkert kom svarið. Sumir báru lof á hann fyrir að vera fylginn sér en öðrum þótti hann á stundum of ágengur við viðmælendur sína, jafnvel ókurteis. Má gera ráð fyrir því að fólk hafi lært inn á hans karakter þarna og fundist þetta vera rétta týpan í starf borgarstjóra?

„Það má vel vera, ég skal ekki dæma um það. Winston Churchill sagði einu sinni að nóg væri að drepa mann einu sinni í stríði en stjórnmálamann væri hægt að drepa aftur og aftur. Maður vinnur þá kannski ekki alla en maður verður samt að vera óhræddur við að taka slagina – og ég er það.“

Nánar er rætt við Einar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert