Hraun úr Húsfellsbruna gæti farið enn lengra

Horft yfir Heiðmörk og til fjalla. Húsfellsbruni er víðfeðmt hraunflæmi …
Horft yfir Heiðmörk og til fjalla. Húsfellsbruni er víðfeðmt hraunflæmi suðaustur af þessu vinsæla útivistarsvæði. mbl.is/Hari

Fregnir af skjálftahrinu í Húsfellsbruna, skammt suðaustur af Heiðmörk, hafa vakið athygli. Talið er mögulegt að kvika sé þar tekin að safnast fyrir í jarðskorpunni.

En það er ekki aðeins fyrir sakir nálægðar Brennisteinsfjallakerfisins við höfuðborgarsvæðið, sem vert er að veita því athygli, heldur eru Brennisteinsfjöll það kerfi sem að meðaltali býr til stærstu hraun Reykjanesskagans.

Að minnsta kosti þau lengstu, segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

Lengstu hraun Íslands eru helluhraun

„Þau virðast oft búa til það sem við köllum helluhraun,“ segir Þorvaldur um Brennisteinsfjöll og kerfið sem við þau er kennt.

„Slík hraun eru með einangrað flutningskerfi, sem þýðir að hraunið helst heitt frá upptökum sínum og til áfangastaðarins. Þegar það kemur út úr flutningskerfinu þá er það heitt og getur því breitt aðeins úr sér á þeim stað sem það brýst út, sem lengir síðan enn þetta einangraða flutningskerfi,“ bætir hann við.

„Þú getur þá flutt heita kviku enn lengra. Öll langlengstu hraun á Íslandi eru helluhraun.“

Rann næstum til sjávar við Straumsvík

Húsfellsbruni er það hraun sem rann næst Reykjavík í síðustu goshrinu Reykjanesskagans, löngu áður en þar reis borg.

„Það getur gerst aftur og getur meira að segja farið lengra, ef það gýs á þessum stað,“ segir Þorvaldur.

„Síðast þegar gaus svona norðarlega á Brennisteinsfjallareininni þá rann hraun næstum því til sjávar við Straumsvíkina.“

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka