„Þetta er bara ekki hægt“

Guðbergur Reynisson er fyrrverandi formaður fagráðs um umferðarmál og telur …
Guðbergur Reynisson er fyrrverandi formaður fagráðs um umferðarmál og telur ákvarðanir á þeim vettvangi of hægar og biðina of langa. Sex banaslys hafa orðið í umferðinni það sem af er ári. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum búin að vera að berjast fyrir umferðaröryggi síðan 2016, einkum á Reykjanesbrautinni, 17.000 manns í hópnum Stopp hingað og ekki lengra!“ segir Guðbergur Reynisson, forsvarsmaður hópsins og fyrrverandi formaður fagráðs um umferðarmál, í samtali við mbl.is.

Segir Guðbergur að hópnum blöskri sex banaslys í umferðinni það sem af er ári og janúar ekki einu sinni allur. Allt árið í fyrra hafi banaslysin verið fjögur. Hefur Guðbergur óskað eftir fundi með Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Vegagerðinni, Samgöngustofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og ríkislögreglustjóra til að ræða leiðir til úrbóta sem að hans áliti þurfi að vera án tafa.

Umferðarmenning breyst hröðum skrefum

„Núna eru komin sex banaslys á fyrsta mánuði ársins. Þetta er bara ekki hægt og mér finnst ekki nógu mikið gert, alla vega ekki sýnilegt. Við eigum auðvitað að fá að vita hvað er verið að gera til að sporna við þessu,“ segir Guðbergur og er spurður hverjar leiðir til úrbóta séu að hans mati.

„Það þarf náttúrulega bara að gera vegina betri og greinilega þarf meira eftirlit og kannski þarf bara að kenna fólki að keyra við þessar aðstæður, ég held að við þurfum enn meiri eftirfylgni og kennslu og vegirnir eru greinilega ekki nógu vel þjónustaðir miðað við aðstæður,“ heldur Guðbergur áfram.

Alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbrautinni um klukkan sjö í gærkvöldi.
Alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbrautinni um klukkan sjö í gærkvöldi. mbl.is

Aðspurður kveður hann umferðarmenningu á Íslandi hafa breyst hröðum skrefum. „Það er ekki hægt að segja að þetta séu bara ferðamenn, Íslendingar eru að lenda í þessum tjónum líka og auðvitað eru þetta ekki bara banaslys heldur hundruð annarra tjóna sem eru misalvarleg,“ segir Guðbergur og spyr í framhaldinu: „Er ekki menningin bara orðin þannig að fólk heldur alltaf að það sé einhver annar að passa þig?“

Allir skilji vandann, en...

Hvernig hafa þessir aðilar sem þú sendir erindi tekið í málið?

„Ég sendi þetta nú bara seint í gærkvöldi og hef ekki fengið viðbrögð enn þá,“ svarar Guðbergur sem kveðst hafa upplifað viðhorf stjórnvalda síðustu ár þannig að ýta þurfi á eftir öllum erindum. „Allir segjast skilja vandamálið en mér finnst þetta ganga of hægt, það þarf að taka fleiri ákvarðanir og taka þær hraðar,“ segir hann.

Umferð í Ártúnsbrekkunni 25. janúar. Guðbergur kallar eftir bættum vegum …
Umferð í Ártúnsbrekkunni 25. janúar. Guðbergur kallar eftir bættum vegum og bættri umferðarmenningu á Íslandi. Ljósmynd/Vegagerðin

„Það voru fjögur banaslys í fyrra, þau eru orðin sex núna. Þetta er bara ekki hægt. Eins og ég skrifaði í þessum pósti sem ég sendi: „Það [sex banaslys á þessu ári] er of mikið og ellefu mánuðir eftir af árinu. Guð má vita hve mörg alvarleg slys hafa orðið og eiga eftir að verða. Það þarf að bregðast við strax.

Get ég fengið fund með ykkur í vikunni til að fara yfir hvað hægt sé að gera til að bregðast við og býð fram hjálp ef þarf.“ Þetta er ekki svæðisbundið, þetta er um allt land og það þarf að flýta ákvörðunum um að bæta vegi og bæta umferðarmenningu,“ segir Guðbergur Reynisson að lokum, forsvarsmaður hópsins Stopp hingað og ekki lengra! Sem nú telur 17.000 áhuga- og baráttumenn fyrir bættri umferðarmenningu og færri slysum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert