„Enginn heimamaður myndi samþykkja svona“

„Fólk er að gera ýmislegt annað en að stökkva á …
„Fólk er að gera ýmislegt annað en að stökkva á einhvern glugga, taka sér frí í vinnu. Þetta er algjörlega galið,“ segir Hjálmar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur, segir miklar brotalamir vera á fyrirkomulagi við eignabjörgun í Grindavík. Fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Grindavíkur hafa bókað um breytingu á núverandi fyrirkomulagi.

„Undirritaðir skora á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á Suðurnesjum og ríkislögreglustjóra að endurskoða afstöðu sína varðandi gildandi skipulag og opna sem fyrst fyrir umferð um allar leiðir til og frá Grindavík, fyrir íbúa og atvinnulíf. Þá verður aftur að taka upp opnanir sem gilda frá kl. 10.00 til 17.00 eða 19.00.“

„Þetta er algjörlega galið“

Þetta segir í bókuninni sem Hjálmar Hallgrímsson, fulltrúi D-listans, Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi M-listans og Helga Dís Jakobsdóttir, fulltrúi U-listans, lögðu fram á fundi bæjarstjórnar í gær.

Í nýju fyrirkomulagi er fólki úthlutaður tími og fær svo þrjá tíma til að vitja eigna sinna. Þau sem stóðu að bókuninni vilja frekar hafa almennan opnunartíma og þá getur fólk farið þegar það hentar þeim.

„Fólk er að gera ýmislegt annað en að stökkva á einhvern glugga, taka sér frí í vinnu. Þetta er algjörlega galið,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Við lokunarpóst á Norðurljósavegi. Íbúar þurfa að sýna QR-kóða til …
Við lokunarpóst á Norðurljósavegi. Íbúar þurfa að sýna QR-kóða til að komast inn í bæinn, þar sem þeir sæta svo eftirliti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill opna alla vegi að Grindavík

Hjálmar segir að opna þurfi alla vegi að Grindavík fyrir Grindvíkinga. Hafa Grindvíkingar þurft að fara Krýsuvíkurleiðina sem Hjálmar segir þá hættulegustu, en eins og mbl.is hefur greint frá þá festust Grindvíkingar á þeim vegi á leið sinni til Grindavíkur í vikunni.

„Ég heyri í fólki sem segir við mig „Ég mun ekki fara þessa leið“, sérstaklega eldri borgarar,“ segir Hjálmar.

Nesvegur sem leiðir frá Reykjanesbæ að Grindavík er ekki opinn Grindvíkingum sem þurfa að vitja eigna sinna. Um 600-800 Grindvíkingar eru nú búsettir í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og þurfa þeir að keyra í Hafnarfjörð, fara á Krýsuvíkurveginn og fara þaðan á Suðurstandaveginn sem leiðir inn í Grindavík.

Að því loknu þarf að taka sama hring til baka. Hjálmar segir fólk ekki endilega hafa tíma í þetta og að betra væri fyrir þetta fólk að fara Nesveginn. Í núverandi fyrirkomulagi er Nesvegur ætlaður atvinnulífinu.

„Nesvegurinn er vegurinn sem þú ferð inn að stærstu byggðinni sem er heil, sem er vesturbær Grindavíkur. En ef þú kemur inn að austanverðu þarftu að keyra í gegnum allt svæðið til að fara í öruggari hlutann,“ segir Hjálmar.

Heimamenn ekki hafðir með í ráðum

Spurður hvort Grindvíkingar hafi verið hafðir með í ráðum að vinnuna á þessu fyrirkomulagi segir Hjálmar:

„Ég veit ekki til þess að nokkur heimamaður hafi tekið þátt í þessu, enda veit ég að enginn heimamaður myndi samþykkja svona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert