Mislingar hafa skekið Evrópulönd síðustu mánuði en nú hafa þeir borist enn á ný til landsins með erlendum ferðamanni. Bólusetningaþátttaka hér á landi hefur farið dvínandi eftir heimsfaraldur, sem og í öðrum löndum, en óbólusettir geta veikst alvarlega af sjúkdómnum.
Sjúklingur á landspítalanum hefur greinst með mislinga, eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld. Hann er nú í einangrun á spítalanum.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir staðfestir í samtali við mbl.is að sjúklingurinn sé erlendur ferðamaður á fullorðinsaldri. Hann sé með sterk einkenni en hún getur ekki staðfest hvort hann sé bólusettur eða ekki.
Mislingar eru veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Guðrún telur það alvarlegt ef mislingarnir breiðast út hér á landi.
„Það er áhyggjuefni vegna þess að þeir sem eru óbólusettir eru í hættu að geta smitast ef þeir eru útsettir og það geta verið alvarleg veikindi,“ segir Guðrún.
„Á hinn bóginn eru þeir sem eru bólusettir vel varðir. Þeir smitast mjög sjaldan,“ bætir hún við. Þegar bólusettir smitast af mislingum finna þeir fyrir afar litlum einkennum, en slíkt smit kallast „dempaðir mislingar“.
„Ef bólusetningaþátttaka í þjóðfélaginu er ekki nógu mikil þá er hætta á því að þetta getur breiðst út, af því að þeir eru alveg gríðarlega smitandi,“ segir sóttvarnalæknir.
Bólusetningaþátttaka á Íslandi hefur farið dvínandi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
„Hún [þátttakan í bólusetningum] hefur lækkað og er ekki alveg nógu góð fyrir mislinga,“ segir Guðrún.
Þátttaka í MMR-bólusetningum (gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum) nam um 90% hjá börnum á Íslandi árið 2022. Þátttakan þarf aftur á móti að nema um 95% til þess að hægt sé að tryggja hjarðónæmi, að sögn Guðrúnar, sem segir að gögn árið 2023 muni ekki liggja fyrir fyrr en í sumar, þar sem þau eru tekin saman í lok hvers skólaárs.
„Þá eru nógu margir óbólusettir til þess að það getur smitast til annarra og hver einstaklingur getur smitað svo marga þar sem þetta er svona smitandi,“ bætir Guðrún við.
„Við vorum að vonast til í fyrra, 2023, að hafa náð að vinna þetta aðeins upp. En við vitum það ekki alveg enn þá.“
Ferðamaðurinn kom hingað til landsins á miðvikudag, 31. janúar. Heilbrigðisyfirvöld hafa þegar haft samband við þau flugfélög sem fluttu ferðamanninn og farþegar hafa verið upplýstir um smithættu.
„Þetta er öndunarfærasmit þannig að þeir fara út í andrúmsloftið og geta verið þar í svolítinn tíma,“ segir hún. Einkenni geta komið fram hjá smituðum allt frá einni til þremur vikum eftir smit.
Guðrún segir að þeir sem hafi verið nálægt hinum smitaða séu í mestri hættu en jafnframt sé mikil hætta á smiti fyrir alla óbólusetta sem voru í vélinni.
Bretland glímir nú við mislingafaraldur, sem og önnur Evrópulönd. Heilbrigðiseftirlit Bretlands hefur skráð yfir 300 mislingatilfelli í Englandi frá því í október, að því er fram kemur í umfjöllun tímaritsins Nature. Aðeins um 85% enskra barna yfir 5 ára aldri eru bólusett.
Guðrún gerir grein fyrir því að mislingatilfelli hafi margfaldast í Evrópu.
„Bólusetningarnar þar, þetta er það sama, þetta hefur farið niður á við,“ útskýrir Guðrún. „Það er misjafnt eftir löndum en það er um eða rétt undir 90% [bólusetningaþátttaka] í Evrópu, sem er ekki nóg.“
Aðspurð hvers vegna bólusetningaþátttaka hafi dvínað eftir heimsfaraldurinn svarar Guðrún að þátttaka hafi þegar farið dvínandi í sumum löndum fyrir faraldurinn.
„Þetta versnaði í faraldrinum bara út af ástandinu sem var þá. Það voru náttúrulega mikil veikindi á fólki, það voru alls konar takmarkanir,“ segir hún og bendir á að mikið álag hafi einnig verið á heilbrigðisþjónustunnar.
Hún bendir á að árið 2019 hafi komið upp mislingasmit hér á landi en þá var einnig mikill mislingafaraldur í Evrópu. Níu manns smituðust þá – þar af sex sem smituðust af manni sem kom erlendis frá.
„Það var gripið til bólusetningaátaks þá og bólusett aukalega eitthvað 7 þúsund manns aukalega,“ segir Guðrún.
„En við erum að sjá hvernig það verður og höldum bara áfram að vinna í þessu með okkar fólki á mánudaginn.“
Í skýrslu UNICEF frá 2023 kom fram að 67 milljónir barna hefðu misst af einni eða fleiri bólusetningum á síðastliðnum þremur árum.