Dorrit: Aðeins öfgamenn styðja Netanjahú

Dor­rit Moussai­eff, fyrr­ver­andi for­setafrú, sendir Benja­mín Net­anja­hú, forsætisráðherra Ísraels, tóninn.
Dor­rit Moussai­eff, fyrr­ver­andi for­setafrú, sendir Benja­mín Net­anja­hú, forsætisráðherra Ísraels, tóninn. Samsett mynd/Yael B.C/AFP

„Þessi dómsniðurstaða hefur auðvitað ekkert að segja, það er engin leið að framfylgja henni,“ segir Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, í samtali við mbl.is um nýlega niðurstöðu Alþjóðadómstólsins í Haag í máli Suður-Afríku gegn Ísrael sem hún gefur lítið fyrir þrátt fyrir að viðurkenna að vissulega sé niðurstaðan jákvæð. Það dugi bara ekki til.

„Það sem mestu skiptir [í deilu Ísraela og Palestínumanna] er að hér er um átök menningarheima að ræða. Öfgamenn einir styðja Bibi [Netanjahú forsætisráðherra] og hann nýtur mjög takmarkaðs þingmeirihluta, á Knesset [ísraelska þinginu] eru 120 þingsæti. Hann þarf ekki að missa stuðning nema fimm þingmanna til að stjórn hans falli,“ heldur Dorrit áfram.

Eins og mbl.is fjallaði um í lok janúar var forsetafrúin fyrrverandi óvægin í garð forsætisráðherrans ísraelska í færslu á Instagram nýverið.

Eiga sér enga framtíð utan stjórnarinnar

Vandamálið segir hún vera hve illa ísraelsku ríkisstjórninni farist að stjórna landinu.

„Öfgasinnuðu ráðherrarnir sem núna styðja Netanjahú eiga sér enga framtíð utan þessarar ríkisstjórnar og þeir munu hvergi finna sér annað starf, þess vegna standa þeir saman,“ segir Dorrit og nefnir dæmi.

Þar á meðal séu mútugreiðslur til ísraelskra landtökumanna og brottnám skattfjár frá bráðnauðsynlegum málefnum, „sem í staðinn rennur til fólks sem hefur varið lífi sínu í að liggja í Biblíunni og finna þar þá túlkun að Guð hafi mælt fyrir um hernám ákveðins landsvæðis,“ segir hún.

„Það sem mestu skiptir er að hér er um átök …
„Það sem mestu skiptir er að hér er um átök menningarheima að ræða. Öfgamenn einir styðja Bibi [Netanjahú] og hann nýtur mjög takmarkaðs þingmeirihluta.“ Ljósmynd/Yael B.C

Takmörkuð skyggnigáfa

Ríkisstjórnin fjármagni þar með í raun ofstækiskennda túlkun trúarinnar og deilur Ísraela og Hamas liða snúist í grunninn ekki um annað en að einn ofstækistrúarhópurinn sé í stríði við annan.

„Skyggnigáfa mín er ákaflega takmörkuð á þessum vettvangi,“ segir Dorrit glettnislega þegar blaðamaður innir hana eftir því hvernig hún telji að þessum áratugalöngu væringum linni er upp verður staðið. „Eitthvað verður þó að gera, þarna er fjöldi saklauss fólks að deyja fyrir ekki neitt,“ segir hún ákveðin. „Báðir aðilar þessarar deilu hafa rangt fyrir sér.“

Segir Dorrit frá för sinni til Davos í Sviss í janúar þar sem Isaac Herzog, forseti Ísraels, stýrði efnahagsráðstefnu World Economic Forum en þangað ferðaðist hann ásamt ísraelskum gíslum sem Hamas-samtökin höfðu í haldi á Gasasvæðinu og ávarpaði Herzog ráðstefnugesti með frásögnum af grimmdarverkum Hamas-liða.

„Ég hitti nokkra gíslanna fyrrverandi og ræddi við þá,“ segir Dorrit frá, „það sem er að gerast milli þessara þjóða verður að stöðva, það er hryllilegt,“ bætir hún við.

Dorrit Moussaieff segir Ísland ekki mega falla í þá gildru …
Dorrit Moussaieff segir Ísland ekki mega falla í þá gildru sem Tony Blair féll í þegar hann leiddi Bretland í stríð við Írak árið 2003 til að þóknast George Bush. Ljósmynd/Yael B.C

Bush skellti skollaeyrunum

Dorrit kveður markmið 99 prósenta stjórnmálamanna vera að skara eld að eigin köku, annaðhvort með því að smjaðra fyrir einhverjum sem lappi upp á orðstír þeirra eða vera sammála fólki sem þeir telja áhrifameira en þá sjálfa.

„Ísland má ekki falla í þá gildru sem Tony Blair [þáverandi forsætisráðherra Bretlands] féll í þegar hann leiddi Bretland í stríð við Írak árið 2003 til að þóknast George Bush [þáverandi Bandaríkjaforseta], algjörlega í trássi við skýr skilaboð Peter Goldsmith [lávarðar og þáverandi ríkislögmanns Bretlands] um að stríð við Írak væri ólöglegt,“ segir forsetafrúin fyrrverandi.

Bush hafi skellt skollaeyrunum við áreiðanlegum gögnum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad og fleiri leyniþjónusta. Saddam Hussein hafi ekki haft nein gjöreyðingarvopn í sínu vopnabúri.

„Spurðu Ólaf [Ragnar Grímsson] bara út í það sem hann ræddi við föður minn sem þá stóð á níræðu. Hussein hefði átt að fá að vera á sínum stað, hann hefði átt að gera að bandamanni [Vesturlanda], þá væri Íran ekki í þeirri stöðu sem það er í núna. Hussein hefði þurrkað út megnið af al-Kaída og Ríki íslams,“ heldur Dorrit áfram.

Dorrit kveður það hryllilegt sem nú á sér stað milli …
Dorrit kveður það hryllilegt sem nú á sér stað milli Ísraels og Palestínu. Hún hitti nokkra ísraelsku gíslanna í Davos í Sviss í janúar. Ljósmynd/Yael B.C

Menntuð þjóð – eigin ákvarðanir

Hún leggur á það áherslu að Ísland þurfi ekki samþykki eins eða neins utanaðkomandi til að aðhafast, hvort sem er heima við eða á alþjóðavettvangi. „Íslendingar eru gríðarvel menntuð þjóð sem getur tekið sínar eigin ákvarðanir. Allar ákvarðanir stjórnmálamanna, sem gætu haft í för með sér neikvæðar afleiðingar síðar, þarf að gaumgæfa vandlega.“

Talið berst að lokum að nýlegri og háværri umræðu á Íslandi um hvort rétt sé að sniðganga Eurovision-söngvakeppnina vegna háttsemi Ísraela í garð nágranna sinna.

„Ísland á bara að gera það sem er best fyrir Ísland,“ segir Dorrit með miklum áhersluþunga og telur alls ekki rétt að snúa baki við keppninni í vor vegna Ísraels.

„Engin utanaðkomandi öfl eiga að hafa áhrif á það hvernig Ísland kynnir sig á alþjóðavettvangi. Þetta skiptir bara öllu máli, að þau skref séu stigin sem gagnist hverjum einasta íslenska borgara sem best. Ég get ekki lagt nægilega mikla áherslu á þetta,“ segir Dorrit Moussaieff að lokum.

„Ísland á bara að gera það sem er best fyrir …
„Ísland á bara að gera það sem er best fyrir Ísland,“ segir Dorrit Moussaieff og fer ekki í neinar grafgötur með skoðanir sínar. Ljósmynd/Yael B.C
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert