Reykjavíkurborg hefur beðist afsökunar á því að hafa sektað íbúa við Frakkastíg fyrir að leggja í einkastæði sínu og hyggst endurgreiða sektina, að sögn íbúans.
Eins og mbl.is greindi frá á dögunum fékk Anna Ringsted, íbúi við Frakkastíg til áratuga, sekt frá bílastæðasjóði fyrir að leggja í stæði á einkalóð sinni.
Þau rök sem borgin færði fyrir sektinni voru þau að deiluskipulag gerði ekki ráð fyrir bílastæði á lóð Önnu.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sagði einnig í samtali við mbl.is í síðustu viku að það væri ljóst að innkeyrsla Önnu væri ekki skilgreind sem bílastæði í deiliskipulagi.
Anna staðfestir nú við mbl.is að borgin hafi beðist afsökunar á sektinni. Hún segir að Elísabet, dóttir sín, hafi haft samband við borgaryfirvöld fyrr í dag og þá hafi starfsmaður borgarinnar sagt að sektin, sem Anna hefði ranglega fengið, yrði endurgreidd.
„Þetta er bara löglegt stæði,“ segir Anna í samtali við mbl.is, spurð hvers vegna hljóðið í borginni væri nú annað en það sem heyrðist í síðustu viku.
Bílastæðagjöld í miðbænum hækkuðu um 40% í október á síðasta ári, íbúum og starfsfólki til mikillar armæðu, en bílastæðasjóður rukkar nú einnig á sunnudögum.