Borgin biðst afsökunar og endurgreiðir sektina

Húsið og bílastæðið árið 2013, en þar má greinilega sjá …
Húsið og bílastæðið árið 2013, en þar má greinilega sjá innkeyrslu á lóðina. Skjáskot/Google Maps

Reykjavíkurborg hefur beðist afsökunar á því að hafa sektað íbúa við Frakkastíg fyrir að leggja í einkastæði sínu og hyggst endurgreiða sektina, að sögn íbúans.

Eins og mbl.is greindi frá á dögunum fékk Anna Ringsted, íbúi við Frakkastíg til áratuga, sekt frá bíla­stæðasjóði fyr­ir að leggja í stæði á einkalóð sinni.

Þau rök sem borgin færði fyrir sektinni voru þau að deilu­skipu­lag gerði ekki ráð fyr­ir bíla­stæði á lóð Önnu.

Dóra Björt Guðjóns­dótt­ir, formaður um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur, sagði einnig í samtali við mbl.is í síðustu viku að það væri ljóst að inn­keyrsla Önnu væri ekki skil­greind sem bíla­stæði í deili­skipu­lagi.

Anna Ringsted.
Anna Ringsted. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er bara löglegt stæði“

Anna staðfestir nú við mbl.is að borgin hafi beðist afsökunar á sektinni. Hún segir að Elísabet, dóttir sín, hafi haft samband við borgaryfirvöld fyrr í dag og þá hafi starfsmaður borgarinnar sagt að sektin, sem Anna hefði ranglega fengið, yrði endurgreidd.

„Þetta er bara löglegt stæði,“ segir Anna í samtali við mbl.is, spurð hvers vegna hljóðið í borginni væri nú annað en það sem heyrðist í síðustu viku.

Bíla­stæðagjöld í miðbæn­um hækkuðu um 40% í októ­ber á síðasta ári, íbú­um og starfs­fólki til mik­ill­ar armæðu, en bíla­stæðasjóður rukk­ar nú einnig á sunnu­dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert