Vart hefur orðið við aðra skjálftahrinu á Reykjaneshrygg, djúpt suður af Íslandi. Stærsti jarðskjálftinn varð klukkan 13.53 í gær og mældist 5,4 að stærð.
Annar reið yfir á sömu mínútu og mældist að stærðinni 5,3. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið, stærstur þeirra 5,0 að stærð.
Hrinan er ekki sú fyrsta til að verða á svæðinu á tiltölulega skömmum tíma. Greint var frá öðrum hrinum stórra skjálfta á mbl.is í desember.
Kunna hrinurnar að vera merki um sambærilegan atburð við þá sem átt hafa sér stað á Reykjanesskaga að undanförnu, að sögn Ármanns Höskuldssonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sem benti á þetta í desember.
Þarna liggi eitt mikilvægasta þverbrotabeltið í Norður-Atlantshafi, Bight-þverbrotabeltið, en sprungukerfi þess sýni gliðnunarstefnu flekamóta Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans.