Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV, gengst við ummælum Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum um að vera frekja. Það verði þó að setja í samhengi við það að starf hans sé að reyna að tryggja aðgengi sinna starfsmanna að sögulegum atburðum í Grindavík.
„Ég hef átt allnokkur samtöl við Úlfar frá 10. nóvember og þá yfirleitt í þeim tilgangi að tryggja aðgengi RÚV og annarra fjölmiðla að svæðinu. Hvort sem það á við um Grindavík eða einhverjar aðrar lokanir þar í kring. Ef hann vill kalla það frekjutón eða frekju þá gengst ég alveg við því. Ég er að gera þetta fyrir hönd fjölmiðla og okkar. Þetta er okkar starf,“ segir Heiðar.
Fréttamenn frá RÚV slitu sig frá lögreglufylgd í dag þar sem þeim var haldið við hafnarsvæðið í Grindavík fjarri íbúum sem voru í bænum að gæta að eigum sínum. Heiðar segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun tekna af yfirmönnum.
„Þetta var ákvörðun sem tekin var í Efstaleiti að vandlega athuguðu máli,“ segir Heiðar.
Að sögn hans voru afleiðingarnar þær að lögregla skammaði fréttamenn við endurkomu á iðnaðarsvæðið. „Þegar þau koma aftur á hafnarsvæðið þá bíða þeirra lögreglumenn og þau fengu skömm í hattinn,“ segir Heiðar.
Aðspurður segir hann rökstuðning Úlfars fyrir takmörkunum á fjölmiðlamenn snúa að því að sýna þurfi Grindvíkingum tillitsemi.
„Ég er ekki ósammála því að það þurfi að sýna tillitsemi. En ég held að það sé ekki lögmæt ástæða til að loka svona á starfsemi fjölmiðla á svæðinu. Ég get ekki séð að þau rök standist skoðun,“ segir Heiðar.
Hann segir að í dag hafi fréttamenn RÚV fylgt fólki á tiltekið heimili þar sem heimilismenn höfðu samþykkt að taka á móti þeim. „Fólkið vildi ræða við okkur og leyfa okkur að mynda það þegar þau voru að pakka búslóðinni og mögulega yfirgefa Grindavík fyrir fullt og allt. Þetta er saga sem mjög mikilvægt er að skrásetja en við höfum ekki fengið vegna þeirra reglna sem eru í gildi á svæðinu,“ segir Heiðar.
Úlfar hefur ekki viljað ræða við mbl.is vegna málsins. Í samtali við Vísi sagði hann fréttamenn RÚV sérlega erfiða í samskiptum en talaði betur um samstarf við aðra fjölmiðla. Þá dró hann einnig fram atvik þar sem ljósmyndari RÚV var sakaður um að hafa ætlað sér inn í mannlaust hús.
Finnst þér þessi ummæli smekkleg í þessu samhengi?
„Nei, mér finnst það ekki,“ segir Heiðar en tjáir sig ekki frekar um það.