Kvikugangurinn 15 kílómetra langur

Aðalhöfundar greinarinnar eru m.a. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við …
Aðalhöfundar greinarinnar eru m.a. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við HÍ, og Michelle Maree Parks, sérfræðingur í jarðskorpurannsóknum á Veðurstofunni. mbl.is/Árni Sæberg

Kvikugangurinn undir Grindavík er um 15 km að lengd og mesta opnunin um átta metrar. Hann sker jarðskorpuna á 1 til 5 km dýpi.

Kemur þetta fram í grein íslenskra sérfræðinga sem var birt í bandaríska tímaritinu Science í gær, sama dag og gos hófst á milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks. Skýringum er varpað fram um tilurð kvikugangsins við Grindavík sem myndaðist í jarðhræringunum 10. nóvember.

Aðalhöfundar greinarinnar eru m.a. Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við HÍ, og Michelle Maree Parks, sérfræðingur í jarðskorpurannsóknum á Veðurstofunni.

Í Science kemur fram að gangurinn hafi myndast að miklu leyti á um sex klukkustundum hinn 10. nóvember en áætlað er að kvikustreymi inn í hann hafi þá verið meira en sjö þúsund rúmmetrar á sekúndu.

Meðalrennsli í lengsta fljóti landsins, Þjórsá við Urriðafoss, er um 360 rúmmetrar á sekúndu. Það þyrfti því tuttugu Þjórsár til að jafna rennslið inn í bergganginn eins og það var 10. nóvember.

Miklu meira innstreymi

„Þótt eldgosin í desember og janúar síðastliðnum hafi verið ákveðið sjónarspil þá var kvikustreymið inn í kvikuganginn þann 10. nóvember í fyrra miklu meira þrátt fyrir að ekki hafi komið til eldgoss í það skiptið,“ er haft eftir Freysteini í fréttatilkynningu um greinina.

Freysteinn telur að þetta mikla streymi kviku skýrist annars vegar af áhrifum togkrafta í jarðskorpunni og hins vegar af því að meiri þrýstingur hafi getað byggst upp í kvikusöfnunarsvæðinu í eldstöðvakerfi Svartsengis, áður en jaðar þess gaf sig í fyrsta sinn í jarðhræringunum í nóvember, en gerst hefur í seinni eldsumbrotum.

Freysteinn segir að verið sé að meta yfirstandandi eldgos í samhengi við fyrri atburði á svæðinu en augljóst sé að þegar eldgos er nærri byggð og innviðum geti það haft mikinn eyðileggingarmátt þrátt fyrir að vera ekki endilega stórt í sniðum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert