Segir rikisstjórnina ekki hafa sofnað á verðinum

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðrún Hafsteinsdóttir dóms­málaráðherra segir ríkisstjórnina ekki hafa sofnað á verðinum varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir á Reykjanesskaga. 

Dómsmálaráðherra ræddi við mbl.is að loknum óvenju löngum ríkisstjórnarfundi.

Ríkisstjórnin ræddi meðal annars stöðu á Reykjanesskaga og frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir vegna húsnæðisvanda Grindvíkinga. 

Gamla lögnin þoldi ekki að vera grafin

Guðrún segir gríðarlegt viðbragð hafa verið á svæðinu síðan í nóvember þegar hún er spurð af hverju vinna við fyrirbyggjandi aðgerðir hafi ekki hafist fyrr.

„Það hófst undirbúningur að hjáveitulögninni í nóvember. Það verður að segjast eins og er að við erum búin að vera með gríðarlegt viðbragð á þessu svæði og við vorum eiginlega með allan þann mannafla sem við höfðum í jarðvinnu, sem fór til dæmis í að reisa varnargarða. Það er búin að vera ofboðslega mikil vinna á þessu svæði til forvarnar.“

Hún bætir við að það hafi komið í ljós í fyrir jól, þegar vinna hófst við hitavatnslögnina, að gamla Njarðvíkurlögnin þoldi ekki að láta grafa sig í jörðu. Þá var farið í að leggja nýja lögn.

Einnig séu þau efni sem notuð eru í svona framkvæmdir ekki eitthvað sem liggur á lager og hafa tafir orðið á því að fá þau hér til landsins. 

„Ríkisstjórnin er búin að gera allt sem hún getur gert og við fylgjum auðvitað tilmælum almannavarna. Almannavarnir starfa í umboði mínu sem æðsta yfirmanni almannavarna. Þau koma með tillögur til ráðherra sem ég legg síðan fyrir ríkisstjórnina. Ákvörðun er tekin í framhaldinu. Þetta er bara sá ferill sem hefur verið.“

Frá aðgerðum við nýja hjáveitu í dag.
Frá aðgerðum við nýja hjáveitu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir innviðir gætu verið í hættu

Spurð út í framhaldið segir Guðrún ljóst að margir innviðir á Íslandi gætu verið í hættu vegna náttúruhamfara. 

„Þessir atburðir á Reykjanesi kalla auðvitað á það að við skoðum áhættumat hér á suðvesturhorninu og í kringum höfuðborgarsvæðið.“

Spurð hvort ríkisstjórnin sé farin að huga að umfangsmeiri aðgerðum fyrir möguleg komandi gos segir Guðrún að það eigi eftir að koma í ljós hvenær þessu gosi lýkur og hvort landris muni halda áfram. 

„Ef svo er þá megum við búast við öðrum atburði eftir fjórar til fimm vikur. Vísindamenn hafa verið að spá því að þetta gæti verið takturinn næstu árin. Það kallar á umfangsmiklar aðgerðir að sjálfsögðu.“

Þarf að tryggja orku

„Allt viðbragð snýr að því að tryggja starfsemi orkuversins í Svartsengi. Ef það fer þá myndum við horfa upp á þetta ástand sem hefur verið nú síðasta sólahringinn á Reykjanesi í langan tíma,“ segir ráðherrann.

„Það yrði stórkostlegt mál að ætla að koma orku út á Reykjanes. Við þurfum vitaskuld núna að huga að því hvernig við ætlum að tryggja orku, ekki bara fyrir Reykjanesið heldur líka höfuðborgarsvæðið.“

Guðrún segir endurskoðun á almannavarnalögum vera í gangi.

Þeirri vinnu verði ekki flýtt en gangi vel og sé á áætlun. Hún gerir ráð fyrir því að koma með frumvarp um breytingar á almannavarnalögum á þingi í haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert