Breiðfylkingin ákveður sín næstu skref á mánudag en formaður VR segir að þegar kjaradeilur séu komnar í „svona farsa“ sé aðeins til eins ráðs að taka til að þrýsta á samninga: „Það er að beita aðgerðum.“
Kjaraviðræðum breiðfylkingar stærstu landssambanda og stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði og Samtökum atvinnulífsins (SA) var slitið í gær, eftir að þær strönduðu á forsenduákvæði samningsins, að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR og eins þeirra verkalýðsleiðtoga í fararbroddi breiðfylkingarinnar.
Stéttarfélögin hafa sagt að SA hafi ekki viljað ganga að forsenduákvæði um að hægt yrði að segja upp samningum ef verðbólga færi yfir 7% á samningstímanum og ef vextir lækka ekki um 2,5%.
„Það lá alltaf fyrir að við gætum ekki farið í slíka vegferð án þess að vera með tryggingar fyrir launafólk,“ segir Ragnar Þór. „En Samtök atvinnulífsins vildu fjögurra ára samning án möguleika á uppsegjanleika á samningstíma af okkar hálfu, sem er mjög óvenjulegt.“
Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi vegna viðræðuslitanna. Þar kom fram að það væri „mikilvægt að forsenduákvæði kjarasamninga vegi ekki að sjálfstæði Seðlabankans.“
Ragnar segir það sjónarmið ekki standast skoðun. Hann bendir á að seðlabankastjóri hafi ítrekað talað um launahækkanir kjarasamninga og áhrif þeirra á ákvarðanir Seðlabankans en með því vegi hann ekki að sjálfstæði vinnumarkaðarins.
„Að halda því fram að verkalýðshreyfingin geti ekki sett t.d. vaxtastig inn í samning sem ákveðnar efnahagslegar forsendur stenst einfaldlega enga skoðun,“ segir Ragnar.
„Við erum ekki að vega að sjálfstæði Seðlabankans. Ekki frekar en Seðlabankinn er að vega að sjálfstæði stéttarfélaganna til þess að semja um launahækkanir eða gera samninga.“
Aðspurður segir Ragnar að ekki sé búið að ákveða hvort gripið verði til verkfallsaðgerða en tekur fram að séttarfélögin fundi um helgina með sínu baklandi og síðan fundar breiðfylkingin á mánudag og ákveður næstu skref.
Spurður að því hvort hann telji verkfallsaðgerðir líklegar segist Ragnar vilja vera sparsamur í yfirlýsingum en segir aftur á móti:
„Augljóslega er sú leið sem við lögðum upp með, samkvæmt SA og með SA, ekki að ganga upp. Hvort félögin fari fram með einhverjar aðrar kröfur, með allt öðrum hætti og mögulega allt annarri nálgun, gæti verið ein leið. Svo er hin leiðin, þegar þetta er komið í svona farsa – við erum ekki að ná saman – þá er þetta það eina sem við höfum til þess að þrýsta á samninga, það er að beita aðgerðum.“
Næstu skref skýrist fljótlega eftir helgi, að sögn Ragnars.
„Ég tel að þessi tilraun okkar með SA sé einfaldlega ekki á borðinu lengur. Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að það sé hægt að halda þeirri vegferð áfram,“ segir hann.
„Ég held að þetta hafi verið vísbending um að Samtök atvinnulífsins hafi einfaldlega enga trú á þessu verkefni,“ bætir hann við að lokum.