Heitt vatn í eðlilegt horf eftir viku

Frá fundi almannavarna.
Frá fundi almannavarna. mbl.is/Óttar

Gert er ráð fyrir að eftir viku verði heitt vatn komið í eðlilegt horf í sveitarfélögum á Reykjanesskaga. 

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna sem lauk fyrir stuttu. Guðlaug­ur Þór Þórðar­son um­hverf­is- orku- og loft­lags­ráðherra, Tóm­as Már Sig­urðsson, for­stjóri HS Orku, og Páll Erland, for­stjóri HS Veitna, voru á fund­in­um sem Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna, stýrði. 

Hjördís tók fyrst til máls og nefndi að búið væri að taka saman ýmsar upplýsingar sem verður hægt að finna á vefsíðu almannavarna. Þá benti hún einnig á vefsíðu HS orku og HS veitna. 

Búið er að opna fyrir þjónustusíma í síma 444 2590 þar sem upplýsingar um stöðuna verða veittar. 

Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna og Tóm­as Már Sig­urðsson for­stjóri HS …
Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, sam­skipta­stjóri al­manna­varna og Tóm­as Már Sig­urðsson for­stjóri HS Orku. mbl.is/Óttar

Byrjað að leggja nýja lögn

Tómas tók næstur til máls og sagði að strax í nótt hafi verið sótt efni í nýja hjáveitulögn og að byrjað hafi verið að sjóða saman nýjar lagnir klukkan 14 í dag.

Hann sagði að á næstu tveimur sólarhringum yrði lögð ný 500 metra heitavatnslögn yfir nýja hraunið. Tómas sagði það síðan taka tvo sólarhringa að ná fullri virkni á svæðinu eftir að lögnin er tilbúin.

Því má gera ráð fyrir að það taki um vikutíma að fá heitt vatn á allt svæðinu.

Tómas nefndi að HS orka væri með plan B, C og D og að hlutirnir gætu breyst hratt, líkt og þeir hafa gerst síðustu þrjá mánuði.

Þrotlaus vinna 

Páll tók næstur til máls og fór yfir hlutverk HS veitna sem er að veita heitu og köldu vatni og rafmagni til sveitarfélaga á svæðinu.

Til þess að geta þjónað því hlutverki þarf fyrirtækið vatn og rafmagn sem kemur að mestu úr orkuverinu í Svartsengi.

Hann nefndi að ástandið síðustu mánuði hafi mest bitnað á innviðum HS veitna í Grindavík, en einnig víðar. Páll sagði að þrotlaus vinna hafi átt sér stað í að halda uppi heitu vatni og rafmagni í Grindavík.

Páll Erland for­stjóri HS Veitna.
Páll Erland for­stjóri HS Veitna. mbl.is/Óttar

Svartasta sviðsmyndin rættist

Páll sagði að því miður hafi ein svartasta sviðsmyndin ræst í síðasta eldgosi, það er að segja að ekki sé heitt vatn í húsum á Reykjanesi í marga daga. 

Hann nefndi að rafdreifikerfið sé ekki gert til að þola rafkyndingu húsa. Vandamálið sé að ekki sé hægt að koma nægu rafmagni til íbúa til þess að halda stofuhita í húsnæði og þá sé hætta á að kerfið slái út, líkt og gerðist í gærkvöldi. 

Hann nefndi að engin varahitaveita sé til staðar neins staðar á Íslandi og að olíukatlar leysa ekki vandann. 

Slökkva meðan eldað er

Páll sagði að stofnanir og fyrirtæki hafi nægt rafmagn og geti haldið áfram starfsemi og sama megi segja um götuljósakerfið. 

Hann lagði áherslu á að gríðarlega mikilvægt sé að reyna að lágmarka rafmagnsnotkun þar til heitt vatn kemur. Páll nefndi að útslátturinn í gærkvöldi gæti verið tengdur því að fólk var að elda kvöldmat samhliða notkun á rafmagnsofnum.

Páll nefndi að lokum að verið sé að reyna að viðhalda heitavatnslögnum eins og hægt er. 

Kom ekki á óvart

Guðlaugur Þór tók síðastur til máls og sagði að ástandið hafi ekki komið á óvart þar sem að um hafi verið að ræða eina af þeim sviðsmyndum sem gert var ráð fyrir. 

Hann ítrekaði að mikilvægt væri að fylgja leiðbeiningum almannavarna og sagði að verðmætabjörgun yrði í algjörum forgangi næstu daga. 

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son um­hverf­is- orku- og loft­lags­ráðherra.
Guðlaug­ur Þór Þórðar­son um­hverf­is- orku- og loft­lags­ráðherra. mbl.is/Óttar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert