Palestínska fjölskyldan farin úr landi

Frá mótmælunum í gær.
Frá mótmælunum í gær. Ljósmynd/Aðsend

Palestínska fjölskyldan sem var tekin höndum af vopnuðum sérsveitarmönnum í gær lagði af stað til Grikklands í morgun.

Þrír palestínskir hælisleitendur sem höfðu fengið synj­un um alþjóðlega vernd á Íslandi, hjón og full­orðinn son­ur þeirra, voru tekn­ir hönd­um í gærmorg­un til að hægt væri að vísa þeim úr landi. Fjölskyldan hafði fengið um­sóknir sínar um alþjóðlega vernd í Grikklandi samþykkta. 

„Já hópurinn lagði af stað til Grikklands í morgun,“ skrifar Marín Þórisdóttir, upplýsingafulltrúi stoðdeildar ríkislögreglustjóra, í svari við fyrirspurn mbl.is.

Efnt var til fjölmennra mótmæla fyrir utan lögreglustöðina við Hlemm í gær. Mótmælendur reyndu að hindra brottflutning fjölskyldunnar. 

Vopnaðir sérsveitarmenn kallaðir til

Vopnaðir sérsveitarmenn sóttu fjölskylduna í gærmorgun. Fjölskyldan hafði ekki sinnt til­kynn­ing­ar­skyldu til lög­reglu né viljað yf­ir­gefa landið sjálf­vilj­ug, samkvæmt lögreglu.

Aðgerðasinni sagði við mbl.is í gær að fjölskyldan hefði búið hér á landi í um eitt til tvö ár áður en lögreglan „braust inn“ til þeirra í gærmorgun. 

„Já það er rétt að sérsveitin var kölluð til í gærmorgun,“ svarar Marín, spurð að því hvort fullyrðingar Vísis um að vopnaðir sérsveitarmenn hafi handtekið fjölskylduna séu réttar.

Hvers vegna var talin þörf á sérsveit? Er eðlilegt að kalla til vopnaða sérsveitarmenn til að senda hælisleitendur úr landi?

„Við undirbúning hverrar fylgdar þarf að meta viðbúnaðarþörf lögreglu. Það mat byggir á þeim upplýsingum sem lögregla hefur hverju sinni,“ svarar Marín en útskýrir það ekki nánar.

Mótmælendur reyndu að hindra innkeyrslur lögreglunnar.
Mótmælendur reyndu að hindra innkeyrslur lögreglunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert