Varaði nákvæmlega við því sem gerðist

Skúli Ágústsson, gerði hæðarmælingar og taldi líklegt út frá þeim …
Skúli Ágústsson, gerði hæðarmælingar og taldi líklegt út frá þeim að hraun myndi fara yfir Grindavíkurveg og taka lögn í sundur. Ljósmynd/Aðsend,mbl.is/Kristinn Magnússon

Skúli Ágústsson byggingartæknifræðingur, sem unnið hefur fyrir HS Orku, varaði almannavarnir og viðbragðsaðila nákvæmlega við því hraunflæði sem tók í sundur Njarðvíkurlögn í eldgosinu sem hófst á fimmtudag.

Skúli vakti athygli á málinu árið 2020 og svo aftur í pósti til almannavarna, HS Orku, lögreglunnar og Grindavíkurbæjar þann 29. desember síðastliðinn.

„Leiðir aðeins hraun að Grindavíkurvegi“ 

Tiltekur hann í póstinum að hann telji að mistök hafi verið gerð þegar varnargarðarnir voru byggðir utan um Svartsengi. Þar segir m.a. orðrétt: 

„Þessi varnargarður sem nú þegar er kominn frá Sýlingarfelli og utan um byggðina í Svartsengi leiðir aðeins hraun að Grindavíkurvegi. Tekur í sundur Grindavíkurveginn, heitavatnslögn til Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga. Rýfur rafmagnslínu frá Svartsengi og síður en ekki síst rýfur kaldavatnslögn til orkuversins því kaldavatnslögnin er grunnt í jarðvegi frá Gjánni (aðal vatnstökusvæði Suðurnesja) og því hefur engan tilgang að vera að setja nýja heitavatnslögn djúpt í jörð á þessu svæði þar sem heitavatnið er nú bara kalt upphitað vatn sem kemur frá Gjánni. Verði stórt hraungos á nýju sprungunni þá myndi Svartsengi einangrast og engin kæmist þangað nema fuglinn fljúgandi eða með þyrlum því Grindavíkurvegur færi undir hraun báðum megin við Svartsengi og Norðurljósavegurinn einnig,“ segir Skúli í póstinum. 

Stór hluti þess sem Skúli spáði fyrir um raungerðist í eldgosinu. Hins vegar náði hraunið ekki að kaldavatnslögnum nema að hluta.

*Á myndinni má sjá hraunflæðismat Skúla sem sent var til …
*Á myndinni má sjá hraunflæðismat Skúla sem sent var til Almannavarna. Hér má sjá tillögu hans að varnargörðum og mögulegt hraunflæði frá ólíkum gossprungum.

Þykir vænt um svæðið 

Skúli hefur haft mikil tengsl við Grindavík frá því hann var strákur. Hann hefur unnið mikið fyrir HS Orku og gerði mælingarnar vegna væntumþykju fyrir fyrirtækinu og Grindavíkurbæ. Eins hefur hann unnið mikið fyrir Bláa lónið.

„Ég gerði þetta um helgi að gamni mínu út frá hæðarlínukorti. Ég var mikið í Grindavík sem gutti og það er eiginlega ástæðan fyrir því að ég gerði þetta,“ segir Skúli.

Þetta gerði Skúli árið 2020. „Þá höfðu samband við mig tveir menn, annar frá Neyðarlínunni og hinn frá lögreglunni. Þeir fengu þetta sent til sín árið 2020 en síðan hef ég ekkert heyrt meira í þeim,“ segir Skúli.

Hann segir að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar vegna jarðhræringa á svæðinu undanfarið og sendi póst í lok desember þar sem hann varaði á ný við því sem raungerðist á fimmtudag.

Ekki tekið tilli til hæðarmælinga 

Viltu þá meina að ef miðað er við þessa hæðarmælingu sem þú gerðir, þá hafi ekki verið tekið tillit til þess við byggingu varnargarða?

„Alls ekki. Það hefði átt að gera varnargarð frá Sýlingarfelli að Gíghúsahæð, en í stað þess var gerður varnargarður utan um mannvirkin í Svartsengi. Það var ekki þörf á því ef miðað er við það hvar gosið hefur undanfarin þúsund ár.“

Hann segir að vissulega megi sýna því skilning að varnargarðurinn hafi verið byggður um Orkuverið þar sem miklir hagsmunir eru undir. En hann telur að hægt hefði verið að vinna hlutina mun betur með því að gera styttri og markvissari garða.  

Þorvaldur hafi bent á það sama 

Hann segist ekki hafa verið sá eini sem bent hafi á þessa atburðarás og nefnir að samkvæmt hraunspálíkani sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur kynnti í Kastljósi á RÚV hafi einmitt verið spáð fyrir um að atburðir fimmtudagsins myndu raungerast.

„Hæðin í gígunum þar sem gaus er um 75 metrar yfir sjávarmáli, en hæðin þar sem hraunið rennur í átt að Grindavíkurvegi er í 25 metrum. Svo er Svartsengissvæðið allt í 25 metrum," segir Skúli.

Hann telur fyrirséð að næstu hraunrennsli muni leita í þessa átt. „Það er allt í sömu hæð þarna og því getur hraunið farið yfir Grindavíkurveginn og í átt að Grindavík eða þess vegna til Keflavíkur í átt að Fitjum því þau svæði eru öll í svipaðri hæð," segir Skúli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka