Grindvíkingar gera athugasemdir

Grindvíkingar eru margir hverjir ekki sáttir við fyrirkomulag um kaup …
Grindvíkingar eru margir hverjir ekki sáttir við fyrirkomulag um kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vel á annað hundrað athugasemda hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda við drög að frumvarpi um kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Grindvíkingar og atvinnurekendur í Grindavík hafa skrifað meginþorra athugasemdanna sem eru, þegar þetta er skrifað, alls 167. 

Frumvarpið var kynnt á föstudag og lagt í samráðsgátt. 

Í vikunni er fyrirhugað að fjármála- og efnahagsráðherra muni leggja það fyrir Alþingi. 

Lagt er til í frumvarpinu að einstaklingum standi til boða að selja félagi í eigu ríkisins íbúðarhúsnæði sitt í Grindavík. 

Skilyrði er að eigandi hafi haft skráð lögheimili í viðkomandi eign þann 10. nóvember 2023. Frumvarpið nær ekki til húsnæðis í eigu lögaðila. Miðað er við að kaupverð nemi 95% af brunabótamati að frádregnum áhvílandi veðskuldum og að möguleikinn til að selja standi til boða frá gildistöku laganna til 1. júlí 2024.

Telja sig geta tapað milljónum

Af athugasemdum Grindvíkinga að dæma eru ekki allir á eitt sáttir með frumvarpið og er þar fjölda spurninga varpað fram. Til dæmis hvort tækifæri gefst til að fá endurmat á brunabótum. 

Þá telja margir að ekki sé gætt að jafnræði í frumvarpinu og að íbúum sé mismunað. Þá telja einhverjir að 95% af brunabótamati sé ekki sanngjarnt og vilja að ríkið kaupi eign þeirra á 95% af fasteignamati. 

Aðrir benda á að þeir muni tapa milljónum með þessu fyrirkomulagi og muni aldrei geta keypt sér sambærilega eign á suðvesturhorni landsins fyrir þann pening sem ríkið kaupir eign þeirra á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert