Hin tvítuga Thelma Sif Stefánsdóttir stendur nú frammi fyrir því að tapa yfir milljón á því að ríkið kaupi eign hennar í Grindavík.
Hún er á meðal þeirra fjölmörgu einstaklinga sem hafa sent inn umsögn í samráðsgátt vegna draga að lagafrumvarpi fjármála- og efnahagsráðuneytisins um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Thelma og kærasti hennar, Ólafur Reynir Ómarsson, eru bæði tvítug. Í byrjun árs 2023 kom í ljós að parið ætti von á barni. Þau ákváðu þá að leita að húsnæði til þess að festast ekki inni á leigumarkaðinum. „Við vildum vera í öruggu húsnæði,” segir Thelma í samtali við mbl.is. Þau lögðu þá mikið á sig til þess að safna fyrir útborgun.
„Við sáum fram á að geta keypt í Grindavík. Það er aðeins viðráðanlegra verð þar, og við eigum fjölskyldu þar og gott bakland,“ segir Thelma sem er í grunninn borgarbarn.
Kaupsamningnum á eigninni sem parið keypti var þó ekki þinglýst fyrr en í júní. Sumrinu var síðan varið í að gera upp íbúðina sem kostaði þau um eina milljón. Þau fluttu síðan inn 1. ágúst og eignuðust soninn Ísak Hjalta í lok sama mánaðar. Þá á fjölskyldan einnig hundinn Jökul.
Þau sjá því fram á að tapa milljóninni og öllum þeim tíma sem fór í að standsetja íbúðina þegar Thelma var kasólétt
Tíunda nóvember var Grindavíkurbær rýmdur. „Allt rifið af manni,“ líkt og Thelma orðar það. Fjölskyldan bjó því í fyrstu eigninni sinni í tæpa fjóra mánuði.
Nú eru þau kominn á leigumarkaðinn, staða sem þau höfðu lagt mikið á sig til þess að forðast.
Parið bjó fyrstu mánuðina hjá foreldrum hennar en er nú nýflutt inn í íbúð í Hafnarfirði sem þau hafa gert árs leigusamning um. Þau gátu flutt þau húsgögn sem pössuðu í nýju íbúðina úr Grindavík, en hitt og þetta situr þó eftir í yfirgefna húsnæðinu.
Thelma segir að þau hafi ákveðið að gera árs samning til þess að fá smá hugarró með fastri búsetu þó að íbúðin í Hafnarfirði „verði aldrei heima“.
Hún telur þó skrýtið að leigustyrkur ríkisins renni út í ágúst en margir hafi gert lengri samninga, líkt og þau, og þá sé leiguverðið „klikkun“ á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma þarf parið að reyna að safna til þess að eiga aftur fyrir útborgun.
Eftir að í ljós kom að ríkið hygðist kaupa eignir Grindvíkinga byrjaði parið að skoða í kringum sig á fasteignamarkaði.
„En hvar á maður að kaupa? Það er ekkert í boði,“ segir Thelma og bætir við að þau fái ekki aftur þau fríðindi sem fylgja því að vera fyrstu kaupendur nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir í lögum hvað það varðar.
Þá nefnir hún að Grindvíkingar vinna flestir í Grindavík, á Suðurnesjunum eða á höfuðborgarsvæðinu. Ólafur vinnur hjá slökkviliðinu í Grindavík en Thelma er í fæðingarorlofi.
Hún segir að Grindvíkingar geti því ekki allir rifið upp allar rætur og flutt á landsbyggðina til þess að fá eignir á svipuðu verði og þær voru á í Grindavík.
„Þó að við erum búin að missa húsnæðið okkar þá er allt annað hérna.“
Parið hafði gert ráð fyrir að fá pláss fyrir Ísak Hjalta hjá dagforeldri um eins árs aldurinn, en nú er ljóst að svo verður ekki. Thelma kveðst ekki sjá fram á að hann fái pláss áður en hann fari í leikskóla þar sem biðlistar á höfuðborgarsvæðinu séu svo langir.
„Mér heyrist að stór hluti sé ósáttur með þetta,“ segir Thelma um frumvarp stjórnvalda sem hún telur hafa verið vanhugsað.
Í umsögnunum við frumvarpið má sjá þónokkra gagnrýna að ekki sé ekki hægt að færa núverandi lán yfir á nýja eign sem gerir það að verkum að fólk þurfi að taka lán á óhagstæðum kjörum dagsins í dag. Aðrir gagnrýna að skilyrði sé að fólk hafi haft lögheimili í eigninni 10. nóvember.
Thelma segir að það hafi gleymst að verðlagið í Grindavík sé ekki það sama og á höfuðborgarsvæðinu.
Parið hefur meðal annars skoðað eignir á netinu í Njarðvík og segir hún strax farið að bera á „uppsprengdu verði“.
Þá nefnir Thelma að fasteignaverð muni að öllum líkindum hækka er Grindvíkingar bætist í hóp kaupenda. Hún segist hafa heyrt að fólk ætli að bíða með að setja eignir á sölu þar til ríkið kaupi eignir Grindvíkinga til þess að fá meira fyrir eignirnar sínar.
„Hvar eigum við að kaupa á hefðbundnum lánakjörum fyrir 95% af brunabótamati af eign sem við keyptum sem fyrstu eign?“ spyr hún.
Thelmu finnst því að skoða þurfi málefnið betur.
„Það eru ekki einu sinni sex mánuðir á milli þinglýsingu á kaupsamningi og fram að rýmingu.“
Hvað finnst fólkinu í kringum þig um frumvarpið?
„Mér finnst einhvern veginn að flestir sem maður talar við, sama hvort það sé fjölskylda eða bara félagar og aðrir sem maður þekkir, að maður sé búinn að komast að því að það eru flestir að tapa á þessu,“ segir Thelma.
„Þú gætir átt eign skuldlaust í Grindavík og þú ert samt að tapa.“
Ríkisstjórnin hefur gefið það út að eftir tvö ár hafi Grindvíkingar forkaupsrétt á eignum sínum.
Gætu þið hugsað ykkur að flytja aftur að þeim tíma liðnum?
„Auðvitað langar manni það,“ segir Thelma og bætir við að hún hafi komist að því að hana langi hvergi annars staðar að vera en í Grindavík þrátt fyrir að vera borgarbarn.
Þá segir hún að henni finnist tvö ár mjög stuttur tími og nefnir í því samhengi að sérfræðingar hafi nefnt tíu ára tímabil af náttúruvá.
„Mér finnst alveg galið að þurfa að taka ákvörðun eftir tvö ár. Af hverju á bara einhver maður út í bæ að geta keypt íbúðina mín eftir tvö ár af því að ég er ennþá óviss útaf náttúruhamförunum?“
„Auðvitað langar öllum heim, en við myndum aldrei kaupa eignina okkar aftur fyrr en að við megum flytja heim. Ég sé ekki fram á að það verði hægt að búa þarna með börn eftir tvö ár.“
Hún segir að fólk sé núna loks farið að átta sig á því að hamfarirnar muni taka lengri tíma en búist var við.
„Ég er algjört borgarbarn, en allt í einu langar mig ekki að vera neins staðar nema í Grindavík,“ segir Thelma að lokum.