Það kemur ekki til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda að greiða mútur til að flytja Palestínumenn af Gasasvæðinu.
Þetta kom meðal annars fram í svörum Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Alþingi í dag.
Breska dagblaðið Guardian hefur greint frá því að fyrir þá fáa Palestínumenn sem Egyptar hafa hleypt yfir landamærin til sín, hafi himinháar mútugreiðslur verið greiddar.
Sigmundur rakti það að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefði að undanförnu verið skýr í sínum málflutningi um að ekki væri hægt að sækja fólk á Gasasvæðið fyrr en búið væri að komast að niðurstöðu um heildarbreytingar í hælisleitendamálum og í útlendingalöggjöfinni.
„Nú hefur hæstvirtur utanríkisráðherra lýst því yfir, og raunar hafið framkvæmd þess að sækja fólk á Gasasvæðið,“ bætti Sigmundur við.
„Hvaða breytingar fylgja þessu? Hvaða endurskipulagning á heildarlöggjöf um hælisleitendur og útlendinga hefur verið samþykkt til að gera hæstvirtum utanríkisráðherra kleift að skipta um skoðun að þessu marki frá því sem var fyrir fáeinum dögum síðan? Hvaða heildarbreytingu eigum við von á?“ spurði hann og hélt áfram:
„Hvað hefur hæstvirtur ráðherra gefið eftir af því sem hann taldi áður ef til vill óþarfa? Og einnig spyr ég hæstvirtan ráðherra hvort hann telji ásættanlegt að stjórnvöld greiði hugsanlega mútur til að leysa fólk út af Gasasvæðinu?“
Guðmundur sagði íslensk stjórnvöld hafa verið að skoða með hvaða hætti sé hægt að ná í dvalarleyfishafa af Gasa sem eiga rétt á sameiningu við fjölskyldu hér á Íslandi.
„Ég hef ekki heyrt talað um neinar mútur í því samhengi þannig að því sé haldið algerlega til haga, enda myndu íslensk stjórnvöld ekki fara út í einhverjar slíkar aðgerðir,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur sagði vinnu hafa átt sér stað í ráðherranefnd um útlendinga og innflytjendur þar sem ýmsar hugmyndir hefðu verið reifaðar.
Þó hefði verið litið á þá málaflokka heildstætt og ekki beint í samhengi við fjölskyldusameiningar Palestínumanna.