Íbúar á Suðurnesjum mega búast við að heitt vatn verði farið að streyma til fyrstu húsa undir hádegi í dag.
Þetta segir Páll Erland, forstjóri HS Veitna í samtali við mbl.is, en viðgerð er lokið á hitaveituæðinni frá Svartsengi og heitt vatn farið að streyma í tankana á Fitjum.
Á sama tíma og unnið var að því að gera við og tengja Njarðvíkuræðina, frá Svartsengi til Fitja, í nótt var unnið að undirbúningi þess að gangsetja kerfin í sveitarfélögunum að sögn Páls.
„Nú undir morgun fór vatn að streyma í hitaveitutanka og mega íbúar búast við því að heitt vatn verði farið að streyma í hús fyrir hádegi,“ segir Páll.
Fyrst mun vatn taka að streyma á húsin næst Fitjum og í framhaldinu munu starfsmenn HS Veitna vinna þrotlaust að því að koma heitu vatni á allt svæðið á næsta sólarhring.
Páll segir þá vinnu sem starfsmenn HS Veitna hafa unnið síðustu daga við að koma heitu vatni inn á kerfin með tankbílum muni flýta fyrir því að heitt vatn komist á sem flest hús.
Hann segir húseigendur þó þurfa að vera vakandi fyrir því ef frostskemmdir hafa orðið á lögnunum. Þá þurfi að loka fyrir inntakslokann og hafa samband við þjónustuver HS Veitna.
Fréttin hefur verið uppfærð.