Í tryggingaóvissu erlendis með veika dóttur

Arna, Steinar og Sólveig á gamalli mynd en Sólveig er …
Arna, Steinar og Sólveig á gamalli mynd en Sólveig er nú fimmtán ára gömul og fárveik í Flórída. Læknavísindin átta sig illa á hvað hrjáir hana. Ljósmynd/Aðsend

„Við fórum í frí til Flórída og daginn eftir að við komum þangað byrjar barnið að æla og er illt í höfðinu,“ segir Arna Bech frá en þau maður hennar, Steinar Sigurjónsson, segja farir sínar ekki sléttar úr fríinu vegna skyndilegra og mikilla veikinda fimmtán ára gamallar dóttur Örnu, Sólveigar Eggerz Bech, auk samskipta við SOS International sem sinnir neyðarþjónustu við kreditkortahafa Arion.

Fjölskyldan er stödd skammt frá Orlando – þangað var komið um mánaðamótin – og héldu uppköstin áfram næstu tvo daga, þó með hléum. Segir Arna dótturina þá orðna rænulitla svo þau Steinar hafi drifið hana inn á bráðamóttöku.

„Við sáum að hún var orðin alveg þurr og þar fékk hún vökva í æð og einhver verkjalyf og þá kom í ljós að hún var með sýkingu í annarri kinnholunni þannig að hún fékk pensillín líka,“ segir Arna frá.

Sólveig með systur sinni Lottu sem fullu nafni heitir Liselotte …
Sólveig með systur sinni Lottu sem fullu nafni heitir Liselotte Emilie Bech. Ljósmynd/Aðsend

Fengu taugalækni í Danmörku

Þau hafi svo komið aftur til baka í íbúðina sem þau leigja og hafi þá allt farið í sama farið aftur og uppköst Sólveigar hafist á ný. „Þannig að við fórum aftur upp eftir og þeir verkjastilla hana og gefa henni næringu og setja hana í tölvusneiðmyndatöku, segja alltaf að þeir haldi að þetta sé bara höfuðverkur sem var að valda þessu öllu,“ segir Arna.

Meðan á þessu stóð hafi hún sett sig í samband við SOS International þar sem bandaríska heilbrigðiskerfið kostar sitt fyrir þá sem ekki eru þar tryggðir í bak og fyrir. „Þá fengum við úthlutað einhverjum taugalækni við ríkissjúkrahúsið í Danmörku sem segir að við þurfum að fara á almennilegt sjúkrahús, við vorum bara á einhverju sveitasjúkrahúsi þar sem við vorum þarna töluvert frá Orlando,“ segir Arna.

Þau hafi þá spurst fyrir um hvað væri besta sjúkrahúsið fyrir barn með taugaeinkenni og þá verið bent á að hringja í bandarísku neyðarlínuna 911 sem hafi viljað senda þeim sjúkrabifreið og það svo verið gert.

Sýndi öll einkenni slags

„Þeir skoða hana og eru sammála um að við getum sjálf keyrt hana á sjúkrahúsið, það hefði verið dýrt spaug að fara með hana svo langt í sjúkrabíl,“ segir Arna. Þegar á þetta sjúkrahús var komið hafði Sólveigu hrakað töluvert og var hún flutt inn á sjúkrahúsið í hjólastól. „Þegar hún var skoðuð þar sýndi hún öll einkenni slags, annar hluti andlitsins var lamaður og hún gat mjög lítið beitt hendinni,“ lýsir móðirin.

Þar sé Sólveig drifin í aðra sneiðmyndatöku og þaðan á bráðamóttöku fullorðinna þar sem taugalæknir hafi skoðað hana. „Hún var þá farin að geta hreyft höndina aðeins en var samt enn þá hálfskrýtin,“ segir Arna. Sólveig hafi haft takmarkaða stjórn á hreyfingum handarinnar auk þess sem fæturnir hafi varla borið hana.

Er þarna er komið sögu sýnir Sólveig einkenni heilahimnubólgu að sögn lækna og er þá sett á lyf miðað við þau einkenni. „Hún er mjög kvalin á spítalanum, verkjastillist í raun aldrei þrátt fyrir að hún hafi fengið verkjalyfjaskammt sem hefði getað rotað fíl,“ segir Arna.

Finnski strákurinn hjá SOS

Á þessu sjúkrahúsi, Háskólasjúkrahúsinu í Gainesville, hafi dóttirin verið greind með complex migraine, eða flókið mígreni, og útskrifuð eftir allar þessar skoðanir.

„Svo þegar við erum að keyra heim af spítalanum hringir einhver finnskur strákur frá SOS International og er rosalega frekur, við lentum bara í þriðju gráðu yfirheyrslu. Hann spurði hvort Sólveig hefði einhvern tímann á ævinni fengið hausverk, hver hefur ekki fengið hausverk einhvern tímann á ævinni?“ spyr Arna sem þótti Finninn ungi mjög ágengur, hefði hann margendurtekið sömu spurningarnar og yfirheyrslan hafist svo á ný daginn eftir.

Arna og Steinar eru stödd í fríi í Bandaríkjunum sem …
Arna og Steinar eru stödd í fríi í Bandaríkjunum sem fæstir sæju líklega fyrir sér sem draumafrí, Sólveig veiktist nánast strax eftir að þau komu til Flórída. Ljósmynd/Aðsend

Þarna hafi þau verið búin að vera í fríinu, ef svo mætti kalla, í tíu daga en fjölskyldan á flugfar heim til Íslands 16. febrúar. Faðir Sólveigar, Hrólfur Eggerz, býr hins vegar í Flórída.

Arna segir íslensku tryggingareglurnar ólíkar reglum annarra norrænna ríkja. Miði íslensku reglurnar við sjúkdómsástand síðustu sex mánuði fyrir kaupdag flugmiða. „Þann tíma skoða tryggingarnar. Ég er búin að láta fletta upp í læknaskýrslum Sólveigar þetta tímabil og þar er ekkert að finna,“ segir Arna.

Gott amerískt tryggingafélag, en...

Danski tryggingalæknirinn hafi svo hringt skömmu áður en þetta viðtal var tekið. „Hann sagði mér þá að heilsugæslan heima [á Íslandi] væri ekkert að svara og þess vegna værum við að lenda í þessu veseni,“ segir Arna sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Sólveig má fljúga að mati lækna svo Arna sér fram á að fjölskyldan komist heim. „Í gegnum allar þessar sjúkrahúsheimsóknir hérna í Ameríku höfum við farið í gegnum mjög gott amerískt tryggingafélag þannig að allt er greitt hérna úti en SOS International er að hóta okkur að við fáum þetta allt í hausinn,“ segir Arna sem hefur ekki hugmynd um hver heildarkostnaðurinn við allar sjúkrahúsheimsóknirnar verður.

„Samkvæmt því sem þeir [SOS International] eru að segja er þetta þannig að ef þú hefur einhvern tímann greinst með covid eða inflúensu síðustu sex mánuði fyrir flugið þitt fáirðu bara allt tryggingadótið [kostnaðinn] í hausinn, „heyrðu þú varst með inflúensu eða covid á þessum tíma, þú ert ekki tryggður“, og hver hefur ekki fengið hausverk einhvern tímann?“ segir Arna og vísar til spurninga finnska SOS-fulltrúans.

„SOS láta okkur ekki í friði“

Þau fjölskyldan stefna nú á heimför á föstudag eins og fram hefur komið og skrifar Arna eftirfarandi klausu í Facebook-hópnum Lögfræðinördar:

„(Eins lesandi góður þá er eins gott að kaupa ekki miða út innan 6 mánaða frá Covid-greiningu því ef þú ert veikur (testa alltaf Covid her á spítala) þá ert þú einfaldlega ekki tryggður).

Við heimkomu skipti ég um banka og finn banka sem notast ekki við Vörð.

SOS láta okkur ekki í friði. Dagleg yfirheyrsla og meirisegja þegar barnið var nýútskrifað og allir ósofnir og við búin að fara i gegnum rúsína á spítala og ekki komin heim. Nú eru þeir farnir að senda SMS til að fá allt skriflegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert