Magnús Guðmundsson, byggingameistari, byggingaverktaki og Grindvíkingur, hefur komið að byggingu fjölda húsa í heimabæ sínum. Hann hyggst flytja til Njarðvíkur en sér enga framtíð í Grindavík ef atvinnurekendur fara þaðan.
„Ég er búinn að byggja upp undir kannski annað hvert hús og nánast öll opinber mannvirki, íþróttahús, skóla, fiskvinnsluhúsin,“ segir Magnús í samtali við mbl.is og kveðst hafa starfað sem smiður frá nánast tólf ára aldri.
Blaðamaður og ljósmyndari mbl.is hittu Magnús í Grindavík í dag. Honum finnst sárt að sjá hvernig komið er fyrir heimabænum.
Nú þarf hann, Grindvíkingur til 66 ára, að flytja þaðan og úr húsinu sínu við Efstahraun þar sem hann hefur búið frá því hann var tvítugur.
Magnús segir ástandið á sinni húseign aftur á móti vera þokkalegt. Húsið sé smá laskað, „en það er bara smá spartlvinna og svoleiðis,“ bætir smiðurinn við. Hann á samt enn eftir að tæma sjálft húsið.
En hvernig sérðu fyrir þér framtíð bæjarins?
„Ég bara sé eiginlega enga framtíð hérna. Það eru allir atvinnurekendur að fara í burtu, og ef þeir fara í burtu þá er ekkert við hér að vera.“
Magnús, sem hyggst flytja til Njarðvíkur þar sem hann hefur fest kaup á íbúð, segir sig og sveitunga sína nauðbeygða til að taka slíkar ákvarðanir um búsetu.
Ertu þar með að taka ákvörðun um að kveðja bæinn?
„Mér sýnist það bara vera búið að taka þá ákvörðun fyrir okkur. Mér sýnist almannavarnaráð vera búið að því. Slökkva bara hér á öllum fyrirtækjum og það er búið að henda okkur hérna út.“
Magnús á sjálfur fyrirtæki í bænum, trésmíðaverkstæði, og segir að fyrirtækjaeigendur í Grindavík séu mjög ósáttir við fyrirkomulagið í bænum. „Við fáum ekkert að gera,“ bætir hann við.
„Eins og trésmíðaverkstæðið, við hefðum aldrei þurft að loka. Þótt það gjósi hérna einhvers staðar fyrir ofan. Við hefðum getað labbað undan þessu gosi. Þannig að þetta er alveg galið, það sem menn eru að gera. Það er bara búið að slátra þessu.“
Magnús er yfir höfuð nokkuð sáttur við frumvarp ríkisstjórnarinnar um kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Hann gerir þó einhverjar athugasemdir:
„En það hefðu allir kannski viljað fá aðeins meira. Við erum ekkert að fá fyrir til dæmis gatnagerðargjöld eða lóðina okkar eða neitt slíkt. Bara tekið 5% af þessu brunabótamati,“ segir Magnús.
„Það dugar náttúrulega engan veginn til að kaupa eitthvað annað hinum megin á nesinu eða á Reykjavíkursvæðinu. Það er alveg hreint og klárt: Það er bara verið að neyða fólkið í … já, litlar íbúðir og á leigumarkaðinn.“