Efast um getu lífeyrissjóða til að vera á íbúðalánamarkaði

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir vert að spyrja þeirra …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir vert að spyrja þeirra spurninga hvort lífeyrissjóðir eigi erindi á húsnæðislánamarkað. Samsett mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir það umhugsunarvert að lífeyrissjóðir hafi til þessa einir staðið utan samkomulags fjármálastofnana og ríkisins um að koma Grindvíkingum til aðstoðar með uppkaupum á húsnæði.

Vert sé að spyrja spurninga um getu sjóðanna til að vera á húsnæðislánamarkaði.

„Það vakna upp spurningar á ný um getu lífeyrissjóðanna til að vera á þessum markaði ef þau treysta sér ekki til að vera hluti af þessari heildarlausn. Allir aðrir lánveitendur í landinu telja sig geta það,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.

Þórdís Kolbrún er fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún er fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, segir samtal þó enn eiga sér stað og ekki sé loku fyrir það skotið að lausn finnist í málinu hvað aðkomu lífeyrissjóðanna snertir.

Þórey telur að almenningi sé betur borgið með þá samkeppni sem lífeyrissjóðir veita á húsnæðislánamarkaði. 

 Lífeyrissjóðir eigi ekki fjármuni 

Þórey segir aðkomu lífeyrissjóðanna að samkomulagi um Grindavík vera vandasama sökum þess að lífeyrissjóðir hafi það lögbundna hlutverk að taka við iðgjöldum, ávaxta og greiða út lífeyri.

„Lífeyrissjóðirnir eiga í raun enga fjármuni. Þeir eru að varsla með fjármuni sjóðfélaga. Út frá því þurfa þeir að huga og geta því ekki gefið eftir eignir,“ segir Þórey. Að sögn hennar getur verið vandasamt að gefa eftir persónulegar kröfur sjóðsfélaga sem tekið hafa lán með húsnæði að veði.  

Þó ríkisstjórnin hafi kynnt samkomulag um uppkaup á húsnæði í Grindavík í samvinnu við bankana í síðustu viku segir Þórey samtal við ríkið enn eiga sér stað hvað lífeyrissjóðina varðar.

„Við þurfum að meta hvort að slík aðkoma sé forsvaranleg út frá umboðsskyldu lífeyrissjóðanna sem eru að höndla með fjármuni sjóðsfélaganna. Ef einhver eftirgjöf verður, þá þarf að meta hvort að slíkt sé sanngjarnt gagnvart öðrum sjóðsfélögunum,“ segir Þórey.

Þórey S. Þórðardóttir.
Þórey S. Þórðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Allir sammála um að virði lánasafna hafi lækkað 

Hún segir þó alla sammála um það að eignasafn lífeyrissjóða í sjóðfélagalánum í Grindavík sé minna virði en það var fyrir jarðhræringarnar. Þá bendir hún á að sjóðirnir séu misstórir og hafi mismikla hagsmuni í Grindavík. Hún vonast eftir farsælli lausn í málinu.

„Spurningin er hvernig á að vega og meta þá áhættu og hvað sé eðlilegt endurgjald fyrir þá fjármuni að því gefnu að ríkið vilji ganga til lausna sem felur í sér að gefa eftir persónulegar ábyrgðir,“ segir Þórey.

Lífeyrissjóðir mikilvægir samkeppni 

En fyrst lífeyrissjóðir eru svo bundnir, er þá ekki óheppilegt að þeir séu á húsnæðislánamarkaði yfir höfuð?

„Nei, ég held að fyrir almenning sé samkeppni af hinu góða. Lífeyrissjóðir eru vel til þess færir að veita sjóðsfélagalán. En þeir eiga örðugt með að gefa eftir kröfur. Því ef þú veitir einhverjum lán og viðkomandi setur eignina sína að veði, þá kann hann að hafa greiðslugetu og aðrar eignir í mörgum tilvikum,“ segir Þórey.

Frá kröfufundi Grindvíkinga við lífeyrissjóðinn Gildi.
Frá kröfufundi Grindvíkinga við lífeyrissjóðinn Gildi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún segir ekkert útilokað að einhverjum sjóðum hugnist sú leið sem þegar er unnið að með bönkunum. Hún bendir á að sjóðirnir séu líka í samkeppni sín í milli. Hver og einn sjóður metur sína stöðu og þeir kunna að hafa ólíka sýn og afstöðu hvað eignir í Grindavík snertir. 

En ef engin lausn finnst. Verður gengið að fólki í Grindavík?

„Ef ekkert verður að gert þá verður farið í venjulega innheimtu. En ég held að það verði fundin einhver leið og lausn,“ segir Þórey.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert