Stefán E. Stefánsson
Landspítalinn hefur ekki upplýsingar um ástand þeirra flóttamanna sem komist hafa út af Gasasvæðinu að undanförnu og eiga rétt á fjölskyldusameiningu hingað til lands. Samkvæmt því fólki sem staðið hefur fyrir aðgerðum til að koma því út af átakasvæðinu er það margt hvert í vondu ástandi og mikið veikt.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans segir að stofnuninni séu skorður settar um hversu mörgum mikið veikum einstaklingum sé hægt að taka á móti öðruvísi en að það hefði mikil áhrif á starfsemi spítalans.
Þetta kemur fram í nýju viðtali við hann á vettvangi Spursmála.
„Við höfum takmarkaða getu. Gagnvart svona verkefnum sem koma upp skyndilega. En eins og við gerum jafnan hér á Íslandi, við reynum að bregðast við eins og við mögulega getum.“
- En hversu takmörkuð er hún? Ef þetta eru 10 til 20 mikið veikir einstaklingar þá getur það reynt mjög alvarlega á innviði sjúkrahússins.
„Sannarlega. Sama staða gæti komið upp ef jarðhræringar á Reykjanesskaga halda áfram á svipaðan hátt og áður. Ef það kæmi til þess að það þyrfti að rýma Reykjanesskagann þá eru sjúkrastofnanir þar og sú þjónusta myndi færast til Landspítalans. Það yrði mjög erfitt að eiga við það. Við yrðum engu að síður að gera það.“
- Eruð þið með áætlanir sem tækju mið af því?
„Við erum ekki skilgreint sérstakar áætlanir en við teljum okkur munu ráða við það. En það sama á við um mál eins og þetta að það hefur ekki komið inn á mitt borð.“
- Af hverju ekki? Svo dúkkar þetta upp einn daginn og þið verðið að bregðast við eins og mennirnir sem suðu saman heitavatnslögnina.
„Það er bara mjög mikið af slíku hérna. Engu að síður þá er þetta bara mál sem við þyrftum bara að skoða og bregðast við. Styrkleiki okkar er sá að við búum yfir gríðarlega mikilli þekkingu og öflugt starfsfólk sem getur gert ótrúlega hluti.“
Viðtalið við Runólf má sjá og heyra í heild sinni hér: